Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Furðuleg þjónusta Icelandair

Vinur minn frá Japan er á leið til Íslands í heimsókn. Ekki svosem í frásögur færandi nema hann ætlaði að bóka sér flug frá Noregi til Íslands með Icelandair. Hann fór á www.icelandair.jp og reyndi að bóka en það er ekki hægt fyrr en eftir tvær vikur. Isamu er á leið í heimsreisu og þá er hann lagður af stað þannig að þó hann ætli að koma hingað um miðjan júní gengur það ekki, hann þurfti að bóka núna. Ég fór að leita á www.icelandair.is að því hvort hann gæti ekki bókað þar - neibb enginn hnappur á ensku. Þá leitaði ég á www.icelandair.com en þar er bara hægt að bóka þannig að annar áfangastaðurinn sé í Bandaríkjunum en ekki til og frá Noregi. Ég leitaði því að www.icelandair.no og þar er hægt að bóka - en bara á norsku og hana skilur hinn japanski vinur minn alls ekki.

Þá var bara að hringja í Icelandair og ég beið þónokkra stund sem númer þrjú í röðinni en loks kom notaleg kona í símann. Ég leitaði ráða og hún sagði mér að það væri bara ekki hægt að bóka frá Noregi til Íslands fram og til baka nema á norsku. Mér fannst þetta undarlegt og spurði hvort Icelandair liti á .com lén bara sem bandarísk og hún sagði svo vera. Minn japanski vinur gæti bókað hjá henni en þá væri þetta dýrara. Eftir nokkra umræðu benti hún á www.icelandair.net hann gæti bókað þar. Ég fór þangað og reyndi að skoða bókun til og frá Noregi en þá vippaði kerfið sér í norsku svo það var ekki hægt. Þá benti hún mér á að inn á norsku útgáfunni væru enskar leiðbeiningar, þ.e. þeir sem skilja "Hjelp" á norsku koma að undirsíðu sem ber nafnið "Online booking assistance" og þá kom í ljós að öll hjálpin var á ensku en ekki norsku. Í fljótu bragði sýndist mér þá að Norðmenn þurfi líka að kunna ensku ef þá vantar hjálp.

Konan hjá Icelandair var afar kurteis þegar ég var ekki sátt benti á að það væri víst flókið að forrita bókunarvef þannig að menn gætu bókað á ensku frá Noregi. Henni skildist að þá þyrfti alskyns forritun sem fyrirtækið kæmist nú ekki í. En ef ég væri enn ósátt þá væri snjallast að skrifa á netfangið netklubbur@icelandair.is þá gæti ég komið því á framfæri að ég væri ekki sátt við þetta fyrirkomulag. Síðan benti hún á að ég gæti nú einfaldlega bókað fyrir minn japanska vin það væri einfaldast. Ég er alveg til í það en vandinn minn er sá að ég er lítið heima og vinur minn þarf að bóka ferðina núna. Ég vildi því gjarnan að hann gæti gert þetta sjálfur á Netinu frá Japan. Svo ég hef útbúið hann með ábendingu um hið norska Icelandair, ábendingu á ensku leiðbeiningarnar og vonandi kraflar hann sig út úr því.

Hinsvegar er ég þeirrar skoðunar að vefir Icelandair séu ekki þægilegir fyrir viðskiptavini sem ekki tala tungumál þess lands sem þeir þurfa að ferðast frá. Ég væri t.d. dálítið í vandræðum með að fljúga frá Tokyo til Singapúr ef ég gæti bara notað tungumál þeirra landa til að bóka.


Sjálfstæðismenn og Grímseyjarferjan

Mér þótti nokkuð merkilegt að sjá fréttir Stöðvar tvö í kvöld. Annarsvegar var frétt um Grímseyjarferjuna og ágreiningur um viðgerðarkostnað. Þar kom fram að ekki væri kæling í skipinu fyrir fisk, fatlaðir kæmust ekki í farþegarými og ekki gert ráð fyrir útvarpi eða sjónvarpi í farþegasal. Hinsvegar kom frétt í sama fréttatíma um afar fjölmennan og skemmtilegan fund með Sjálfstæðismönnum í eynni og rakið hver voru aðalmálin á fundinum. Ekki hósti né stuna um að Grímseyingar hefðu nefnt Grímseyjarferjuna, nei það voru Evrópumál, göng til Eyja, Reykjavíkurflugvöllur og kvóti.

Það kom mér verulega á óvart að ekki var minnst á að fundarmenn hefðu nokkurn áhuga á að ræða við sína frambjóðendur um Grímseyjarferjuna. Ekki í samræmi við fund sem ég var á þar um daginn, en það skal þó viðurkennt að hann var ekkert fjölmennur. Kannski voru það bara þeir sem höfðu áhyggjur af ferjunni en ekki hinir.


Þjóðlendumálið og Landsvirkjun

Ég hef sagt það áður og segi það enn á ný, það er með öllu ólíðandi að færa land sem hefur verið tekið sem þjóðlenda - land sem þjóðin ætti að eiga - færa það undir Landsvirkjun og ætla síðan að selja allt heila klabbið. Eru menn virkilega til í að kjósa menn til þess?
mbl.is Segir að byrjað sé að undirbúa sölu Landsvirkjunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómálefnalegir peningar?

Samgönguráðherra hefur ekki mikil rök fyrir þeirri óráðsíu og ákvarðanatökum sem tengjast Grímseyjarferjunni. Hann tekur lítið málefnalega á því sem Kristján L. Möller segir frá varðandi ferjuna en kennir vélsmiðjunni alfarið um allt sem aflaga fer við að kaupa gamalt skip og breyta því í ferju fyrir Grímseyinga. Enga ábyrgð vill ráðherrann taka og má þá spyrja sig hvort margur heldur mig sig eins og segir í máltækinu og viðbrögð hans kannski lituð af því að hann er í kosningabaráttu sjálfur.

Alvarlegast er að ferjan er ekki tilbúin fyrir Grímseyinga, ekki var gert ráð fyrir þörfum þeirra í upphafi þegar skipið er sett í breytingar. Hverjum dettur til dæmis í hug að hafa ekki kælingu fyrir farm úr Grímsey þegar meginflutningurinn er fiskur, matvara til frekari vinnslu eða sölu?

Skipið var töluvert ver farið en menn vilja vera láta sem kom augljóslega fram á myndum sem fylgdu fréttinni. Ég held að ráðherrann hefði frekar átt að svara Grímseyingum málefnalega, það skiptir meira máli heldur en að skeyta skapi sínu á Kristjáni L. Möller alþingismanni.


mbl.is Ómálefnaleg gagnrýni lituð af kosningabaráttu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband