Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Blóðug hjartaþræðing eða karlmannsnári

Það mætti halda af myndinni með þessari frétt að hjartaþræðingu fylgi holskurður og blóðug aðgerð. Svo er auðvitað ekki, alla jafna er gert örlítið gat á nára og þrætt þaðan að hjarta og sprautað inn litarefni til að sjá ástand á kransæðum. Því er þessi mynd eins og að birta mynd af fíl þegar verið er að ræða um könguló.

Því ber að fagna að bið eftir hjartaþræðingum styttist því það er erfitt fyrir marga að vita ekki mánuðum saman hvort og þá hvað er að því þræðingin er jú fyrst og fremst rannsókn á hjarta til að skera úr um hvort þar er eitthvað athugavert.

Þar sem flestir telja að karlmenn séu þeir sem helst fari í hjartaþræðingu (því margir telja ranglega að konur fái ekki hjartasjúkdóma) þá væri réttara að birta mynd af nára á karlmanni með þessari frétt. 


mbl.is Bið eftir hjartaþræðingu styttist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjarskiptasjóður virkar

Gaman að sjá árangur af störfum Fjarskiptasjóðs birtast með svo skýrum hætti. Fjármagnið er að nýtast vel til að efla sambönd á landsbyggðinni. Hlakka til að sjá áframhald verkefna okkar á þessu sviði.
mbl.is GSM sendum fjölgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar sá þriðji kemur

Þar sem berdreyminn maður sá þrjá ísbirni má leiða líkum að því að þegar þriðji björninn kemur verði menn komnir með þekkingu og reynslu af því að taka á móti þessum dýrum. Nauðsynlegt er að til sé aðgerðaáætlun og menn búnir að koma sér saman um hvernig á að bregðast við.

Ég hef hinsvegar áhyggjur af því að ekki er fylgst nægilega vel með ísröndinni því ef tveir ísbirnir eru hér nú er þá ekki möguleiki á því að þeir séu fleiri fjarri byggðu bóli en ferðamenn geti rekist á þá í sumar. Ég hvet menn því til að fljúga yfir þær strendur sem möguleiki er á að ísbirnir geti hafa tekið land og sjái hvort fleiri eru á ísnum hér úti fyrir sem gætu synt í land. Það er allt of mikil áhætta fólgin í því nú í sumarbyrjun að skoða þessi mál ekki ítarlega fyrst annar ísbjörn finnst á svo skömmum tíma.

Sá þriðji á ekki að koma okkur á óvart og það á ekki að hætta því að þriðja barnið sem hugsanlega verður fyrst til að sjá ísbjörn muni sleppa óskaddað frá lífsreynslunni.


mbl.is Erfið aðgerð framundan að Hrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hátíðabullur

Þegar blásið er til hátíðar á Akureyri er eins og hluti manna missi stjórn á sjálfum sér og allt verður vitlaust. Annaðhvort eru það innanbæjarmenn sem fá sjokk við að sjá alla utanbæjarmennina eða utanbæjarmenn sem halda að þeir geti hagað sér eins og þeim sýnist þegar þeir eru ekki heima hjá sér.

Ég er að mestu búin að vera á tónleikum AIM festival um helgina Magnús Eiríks og hans fólk frábært sérstaklega Hrund Ósk Árnadóttir sem er flottasta söngkona sem ég hef heyrt í lengi. Hoodangers frá Ástralíu voru frábærir, Retro Stefson komu á óvart með kraftmikilli tónlist, Mugison skemmtilegur að vanda sem og Helgi og hljóðfæraleikararnir. Víkingur Heiðar Ólafsson var galdramaður á píanóið og Módettukór Hallgrímskirkju frábær.

Ég hef hinsvegar lítið orðið vör við Bíladaga þó maður heyri bílvélar rembast í bænum öðru hvoru.  Ég vil fortakslaust hafa hátíðir á Akureyri en það er ekki skátastarf að sjá um stjórnlaust fólk. Hvernig dettur fólki í hug að Akureyrarbær, skátarnir eða hjálparsveitir sjái um slíkt??? Eru Reykvíkingar t.d. farnir að kalla til skáta til að sjá um miðborgina um helgar? Þar telja menn rétt að lögregla sjái um að tjónka við stjórnlaust fólk sem ævinlega eru í afar hávaðasömum minnihluta. Þessar hátíðarbullur eru hundleiðinlegar, ég vil mínar hátíðir refjalaust og lögreglu sem hefur stjórn á fólki sem getur ekki stjórnað sér sjálft af nokkurri skynsemi.


mbl.is Erfið nótt á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fíflar eru herramannsmatur

Eitt sinn las ég í plöntubók að blóm fífla sé hægt að steikja upp úr hveiti og væru herramannsmatur. Þetta hefur mig lengi langað að prófa en líklega hef ég haft litla trú á fyrirbærinu því árin hafa liðið án þess að ég steikti eitt einasta fífilblóm.

Í gær fórum við María og Henna á Fífilbrekkuhátíð sem haldin var á Hrauni í Öxnadal. Þar afhenti María Jónsóttir textílhönnuður Par-púða, tvo púða innblásnir af kvæðinu Ferðalokum Jónasar Hallgrímssonar. Síðasta ljóðið er eins og hann ritaði með eigin hendi en bakgrunnurinn er himingeimurinn en púðarnir verða á hjónarúmi að Hrauni enda tilheyra þeir ástinni. Þetta er góður staður t.d. fyrir brúðkaupsnótt enda útsýn beint upp á hraundrangann.

Að þessu loknu fórum við í sumarbústaðinn minn þar sem fíflarnir blómstruðu. Við tíndum fífilblóm og blöð ásamt hundasúrum. Fórum síðan heim og ég blandaði saman brauðmylsnu, kryddi og sesamfræjum, velti hundasúrublómunum upp úr eggi með dálitlu vatni og steikti á pönnu. María bjó til salat og Henna bjó til sósu. Þetta varð ótrúleg veislumáltíð, fífilblómin eru afskaplega gómsæt en við vorum ásáttar um að það væri betra að hafa meira af öðru salati með fífilblöðunum þó við hefðum haft þau í vatnsbaði þónokkra stund. Þau eru dálítið sterk.

En steiktir fíflar eru sumsé herramannsmatur sem ég mun örugglega elda aftur.


Höfundur

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband