Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Ekki þjóðin, ekki lýðræði, bara ofbeldi

Ofbeldishneigt fólk fékk í dag útrás með því að eyðileggja eignir Stöðvar 2 og Hótel Borgar. Í fjárhagskreppu sér fólk af þessu tagi ekki annað ákjósanlegra en að auka á vanda samfélagsins með skemmdarverkum. Einnig hindruðu þeir lýðræðislega umræðu og þá von okkar hinna að fá upplýsingar um hvað er á döfinni og hvernig verður unnið eftir þau uppgjör sem fara fram hjá a.m.k. tveimur stjórnmálaflokkum í janúar.

Minna má á að margir hafa reynt að leysa þjóðfélagsvanda með ofbeldi víða um heim. Það hefur ekki virkað. Friðsamleg mótmæli hafa hinsvegar skilað árangri.

Þessi mótmæli nú eiga ekkert skylt við friðsamleg mótmæli undanfarið og ég frábið mér að grímuklæddir ofbeldismenn kenni sig við íslenska þjóð. Þeir eru einungis ofbeldishneigðir einstaklingar. Punktur og basta.

 


mbl.is Beitti piparúða á mótmælendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frelsi:= Eignir_þjóðar + Lán_þjóðarábyrg + Einkagróði

Frelsi hefur einhvernvegin misst gildi sitt í orðabókinni minni. Einkaframtakið sem átti að vera svo miklu betur í stakk búið til að stunda rekstur en þjóðin hefur fengið frelsi til að athafna sig svo um munar. Sumir fengu eignir þjóðarinnar, banka, fisk og margt fleira. Síðan gátu þeir tekið lán og gert þjóðina ábyrga fyrir þeim. Einkagróðann fengu þeir í eigin vasa og borguðu lægri skatta af honum en alþýða manna með eigin vinnu. Rökin, jú þá myndu þeir búa til meiri vinnu fyrir fólk sem borgaði síðan hærri skatta.

Í mínum huga þá virðist það eina sem var einkavætt væri gróði sem varð til eftir handónýtum leikreglum hagfræði sem hefur beðið skipbrot. Þegar á reyndi þá var þjóðin meira og minna ábyrg fyrir skuldunum, missti eignirnar, græddi lítið og tapaði miklu.

Einkaframtakið fór harla illa með frelsi sitt og hefur hneppt þjóðina í ánauð. Þetta er líklega frelsi einstaklingsins til að setja þjóðina í ánauð. Er það frelsi? Hver varð frjáls? Það eina sem var í raun einkavætt var tímabundinn gróði í vasa fárra einstaklinga.


mbl.is Ríkið hluthafi í verslunarkeðjum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nafli alheimsins???

Við erum útkjálki, það þarf ekki haukfráa sjón til að sjá það á landakorti. Sá mikli misskilningur að við séum nafli alheimsins af því við séum ekki í samstarfi við aðra er pólitísk blinda. Við erum ekki einu sinni útkjálki í dag, við erum einfaldlega eyja í miðju úthafi sem rekum stjórnlaust án þess að vita hvar við náum landi þegar upp er staðið. Sú sýn sem menn eru að reyna að selja íslenskri þjóð að við séum nafli alheimsins er fáránleg, við höfum siglt þessu landi í strand á kletti í úthafi án þess að geta miklar bjargir okkur veitt án þess að leita á náðir annarra þjóða.

Það er undir okkur sjálfum komið hver áhrif við höfum í samfélagi annarra þjóða og hver áhrif okkar verða innan Evrópusambandsins. Áhrif okkar utan félagasamtaka þjóða eru hinsvegar engin eftir að við urðum fjárhagslega bjargarlaus. Fiskurinn virðist ekki ætla að verða björgunarhringur og ekki álið. Ég hef hinsvegar þá bjargföstu trú að Íslendingar geti vel látið í sér heyra og haft áhrif innan Evrópusambandsins þó svo að Styrmir Gunnarsson hafi það ekki. En ef hann hefur ekki trú á okkur innan Evrópusambandsins af hverju í ósköpunum hefur hann þá trú á okkur utan þess þar sem við höfum enga samstarfsmenn heldur göngum um með betlistaf?

Hvað svo sem Styrmir Gunnarsson hrópar á hól, þá erum við ekki nafli alheimsins og verðum það ekki hvort sem við erum innan eða utan Evrópusambandsins.


mbl.is Ísland áhrifalaus útkjálki?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlileg ákvörðun

Það er mjög eðlileg ákvörðun hjá Geir Haarde að skipta ekki um í ráðherraliði Sjálfstæðisflokksins fyrir landsfund í janúar. Á þeim fundi geta flokksmenn kjörið nýja forystu og þrátt fyrir að ekki virðist líklegt að skipt verði um formann þá er þó óeðlilegt að formaður sem veit að hann er í kjöri innan skamms sé að gera breytingar stuttu á undan.

Á landsfundinum kemur í ljós hver viðhorf Sjálfstæðismanna eru til forystu sinnar og í kjölfarið er því hægt að grípa til ráðstafana eða breytinga ef ástæða þykir til. Vonandi verða tímamót hjá flokknum hvað varðar umræðu um Evrópusambandið og flokkurinn í fyrsta skipti tilbúinn til þess að sjá hvað í slíkri aðild felst í raun og veru í stað þess að vera með getgátur og spádóma. Það er löngu kominn tími til að landsmenn sjái það svart á hvítu í stað þess að hafa menn sem telja sig vita hvað er þjóðinni fyrir bestu án þess að kanna það raunverulega.

Það verður spennandi að sjá hverju fram vindur.


mbl.is Geir: Engar ráðherrabreytingar fyrirhugaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýsir eigin tilfinningum

Sif Friðleifsdóttir þekkir vel til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn og því ekki ólíklegt að sá flokkur hafi oft upplifað hnefa sem líklega var þá ekki úr stáli heldur blár. Líklegt má þá telja að Framsóknarflokkurinn hafi verið skjálfandi á beinunum.

Ég fyrir mitt leyti upplifi Sjálfstæðisflokkinn ekkert skjálfandi heldur einfaldlega að koma sér að verki sem þeir áttu fyrir löngu að vera búnir að. Pressan kom innan þeirra eigin flokks en kannsk hefði hún ekki komist upp á yfirborðið nema vegna þess að flokkurinn er í samstarfi með Samfylkingunni. Samfylkingin hefur skýra stefnu um að fara í aðildarviðræður og taka ákvörðun byggða á staðreyndum en ekki byggt á spádómsgáfum og tilfinningum eins og aðrir hafa yfirleitt gert.

En ég tek að öðru leyti undir hróp þingmanna úr sal sem spurði "hvað viltu sjálf"? Væri ekki ráð fyrir Sif Friðleifsdóttur að ræða í þingsal hvað menn vilja gera í stað þess að vera með eigin fréttaskýringar á öðru fólki og öðrum flokkum. Framsóknarflokkurinn þarf virkilega á því að halda að standa klár á því sem hann sjálfur vill.


mbl.is Formaðurinn með stálhnefann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgð en ekki upplýsingar

Það er margt í lagaflækjunum sem flókið er að skilja. Ég skil til dæmis ekki hvernig það má vera að íslensk þjóð beri ábyrgð á bönkum í útlöndum en hafi síðan ekki aðgang að upplýsingum um þá. Fréttum við næst af einhverjum dótturdótturbanka sem rúllar einhversstaðar og reikningarnir okkar hækka? Ég fyrir mitt leyti skil ekki ábyrgðir á einhverju sem ekki er hægt að fá upplýsingar um.
mbl.is Stjórnvöld í Lúxemborg veiti upplýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grímuklædd?

Það er óhugnanlegt að sjá fólk á myndbandinu hylja andlit sín grímum og hrópa ógnandi. Við erum ekki vön grímuklæddu fólki nema úr ránum eða öðrum afbrotum enda virtist mér þetta varla mótmæli í lýðræðislegu samfélagi heldur ógn við Alþingi og lýðræðislega kjörið fólk sem þar situr. Ég verð að viðurkenna að ég hefði frekar viljað fá fréttir af umræðum um Icesafe málið sem Sif var að reyna að hefja enda meiri þörf á því og öllu lýðræðislegra.

Nú hafa menn séð skipt um stjórn Reykjavíkurborgar nokkrum sinnum þetta kjörtímabil og ef til vill eigum við eftir að sjá slík skipti á Alþingi. Ég verð þó að viðurkenna að ég vildi frekar sjá stjórnendur landsins takast á við verkefnin eins og staðan er. En það er ekkert óeðlilegt að kjósa um leið og menn geta sett fram markmið að lausnum sem hægt væri að kjósa um. Við erum ekki komin þangað ennþá.


mbl.is Siv: Vildi helst hlaupa í felur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers konar traust?

Hverju treystum við þegar spurt er um traust á fjölmiðlum? Er það traust hvort þeir séu að segja frá einhverju sem raunverulega gerðist eða er það traust á því hvernig þeir segja frá? Er það spurningin um að treysta því að rétt aðalatriði séu dregin fram? Hvers konar traust? Ef við skoðum t.d. umfjöllun um mótmælafund í Reykjavík í dag draga fjölmiðlarnir eftirfarandi fram:

mbl.is: "Ábyrgðin er ekki okkar"
RÚV:    "Mótmælt 9. laugardaginn í röð"
visir.is: "Færri mótmæla á Austurvelli"

Áherslupunktarnir eru misjafnir. Morgunblaðið telur fyrirsögnina felast í fullyrðingu Gerðar Kristnýjar að Íslendingar beri almennt ekki ábyrgð heldur ráðamenn þjóðarinnar. RÚV dregur fram hversu oft er mótmælt en visir.is að nú séu færri sem mótmæla. Ef menn skanna bara fyrirsagnir þá fjallar mbl.is um innihald en hinir tveir miðlarnir um megindlegar upplýsingar um fundina,  hversu oft þeir hafa verið haldnir og hversu margri sækja þá m.v. það sem áður er.

Ég hefði viljað sjá hverju menn svara ef þeir eru spurðir hvort fjölmiðill túlki atburði eftir mismunandi pólitískum skoðunum. Eftir hvaða skoðunum þá?


mbl.is Treysta mbl.is best netmiðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppsagnarbréf

Hér með segi ég undirrituð upp þeim stöðugu áhyggjum sem ég hef haft af fjármálum mínum og Íslands. Ég segi upp reiði yfir því sem hefur gerst, vondum hugsunum og áfellisdómum.

Á sama tíma hef ég ráðið mig í vinnu við að finna lausnir, auka gleði mína, efla góðar hugsanir. Með því einu tel ég að bæði ég og landið mitt geti vænst þess að við náum árangri. Ég mun vinna við það sem ég ræð við og treysta því að fagleg skoðun á vanda þjóðarinnar leiði í ljós hvers vegna hann er.


Nákvæmlega!

Fyrir mér felast engir möguleikar í rifrildi, þrasi og dómsdagsumræðum. Í upphafi ástandsins trúði ég að Íslendingar myndu snúa bökum saman og vinna af sínum alþekkta dugnaði að lausn mála. En smá saman er ég að verða svartsýnni á að menn ætli sér að byggja upp sem ég held að muni auka fólksflóttann frá landinu gífurlega. Menn einblína á vandann, leita sökudólga og fátt vekur vonir. Dómstólar dæma sökudólga mannfjöldi hefur aldrei verið flinkur við það.

Ég vona að þetta breytist því annars verður vandi okkar miklum mun stærri heldur en hann er.


mbl.is Íslendingar einblína á vandann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband