Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Blóðug hjartaþræðing eða karlmannsnári

Það mætti halda af myndinni með þessari frétt að hjartaþræðingu fylgi holskurður og blóðug aðgerð. Svo er auðvitað ekki, alla jafna er gert örlítið gat á nára og þrætt þaðan að hjarta og sprautað inn litarefni til að sjá ástand á kransæðum. Því er þessi mynd eins og að birta mynd af fíl þegar verið er að ræða um könguló.

Því ber að fagna að bið eftir hjartaþræðingum styttist því það er erfitt fyrir marga að vita ekki mánuðum saman hvort og þá hvað er að því þræðingin er jú fyrst og fremst rannsókn á hjarta til að skera úr um hvort þar er eitthvað athugavert.

Þar sem flestir telja að karlmenn séu þeir sem helst fari í hjartaþræðingu (því margir telja ranglega að konur fái ekki hjartasjúkdóma) þá væri réttara að birta mynd af nára á karlmanni með þessari frétt. 


mbl.is Bið eftir hjartaþræðingu styttist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjarskiptasjóður virkar

Gaman að sjá árangur af störfum Fjarskiptasjóðs birtast með svo skýrum hætti. Fjármagnið er að nýtast vel til að efla sambönd á landsbyggðinni. Hlakka til að sjá áframhald verkefna okkar á þessu sviði.
mbl.is GSM sendum fjölgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar sá þriðji kemur

Þar sem berdreyminn maður sá þrjá ísbirni má leiða líkum að því að þegar þriðji björninn kemur verði menn komnir með þekkingu og reynslu af því að taka á móti þessum dýrum. Nauðsynlegt er að til sé aðgerðaáætlun og menn búnir að koma sér saman um hvernig á að bregðast við.

Ég hef hinsvegar áhyggjur af því að ekki er fylgst nægilega vel með ísröndinni því ef tveir ísbirnir eru hér nú er þá ekki möguleiki á því að þeir séu fleiri fjarri byggðu bóli en ferðamenn geti rekist á þá í sumar. Ég hvet menn því til að fljúga yfir þær strendur sem möguleiki er á að ísbirnir geti hafa tekið land og sjái hvort fleiri eru á ísnum hér úti fyrir sem gætu synt í land. Það er allt of mikil áhætta fólgin í því nú í sumarbyrjun að skoða þessi mál ekki ítarlega fyrst annar ísbjörn finnst á svo skömmum tíma.

Sá þriðji á ekki að koma okkur á óvart og það á ekki að hætta því að þriðja barnið sem hugsanlega verður fyrst til að sjá ísbjörn muni sleppa óskaddað frá lífsreynslunni.


mbl.is Erfið aðgerð framundan að Hrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hátíðabullur

Þegar blásið er til hátíðar á Akureyri er eins og hluti manna missi stjórn á sjálfum sér og allt verður vitlaust. Annaðhvort eru það innanbæjarmenn sem fá sjokk við að sjá alla utanbæjarmennina eða utanbæjarmenn sem halda að þeir geti hagað sér eins og þeim sýnist þegar þeir eru ekki heima hjá sér.

Ég er að mestu búin að vera á tónleikum AIM festival um helgina Magnús Eiríks og hans fólk frábært sérstaklega Hrund Ósk Árnadóttir sem er flottasta söngkona sem ég hef heyrt í lengi. Hoodangers frá Ástralíu voru frábærir, Retro Stefson komu á óvart með kraftmikilli tónlist, Mugison skemmtilegur að vanda sem og Helgi og hljóðfæraleikararnir. Víkingur Heiðar Ólafsson var galdramaður á píanóið og Módettukór Hallgrímskirkju frábær.

Ég hef hinsvegar lítið orðið vör við Bíladaga þó maður heyri bílvélar rembast í bænum öðru hvoru.  Ég vil fortakslaust hafa hátíðir á Akureyri en það er ekki skátastarf að sjá um stjórnlaust fólk. Hvernig dettur fólki í hug að Akureyrarbær, skátarnir eða hjálparsveitir sjái um slíkt??? Eru Reykvíkingar t.d. farnir að kalla til skáta til að sjá um miðborgina um helgar? Þar telja menn rétt að lögregla sjái um að tjónka við stjórnlaust fólk sem ævinlega eru í afar hávaðasömum minnihluta. Þessar hátíðarbullur eru hundleiðinlegar, ég vil mínar hátíðir refjalaust og lögreglu sem hefur stjórn á fólki sem getur ekki stjórnað sér sjálft af nokkurri skynsemi.


mbl.is Erfið nótt á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fíflar eru herramannsmatur

Eitt sinn las ég í plöntubók að blóm fífla sé hægt að steikja upp úr hveiti og væru herramannsmatur. Þetta hefur mig lengi langað að prófa en líklega hef ég haft litla trú á fyrirbærinu því árin hafa liðið án þess að ég steikti eitt einasta fífilblóm.

Í gær fórum við María og Henna á Fífilbrekkuhátíð sem haldin var á Hrauni í Öxnadal. Þar afhenti María Jónsóttir textílhönnuður Par-púða, tvo púða innblásnir af kvæðinu Ferðalokum Jónasar Hallgrímssonar. Síðasta ljóðið er eins og hann ritaði með eigin hendi en bakgrunnurinn er himingeimurinn en púðarnir verða á hjónarúmi að Hrauni enda tilheyra þeir ástinni. Þetta er góður staður t.d. fyrir brúðkaupsnótt enda útsýn beint upp á hraundrangann.

Að þessu loknu fórum við í sumarbústaðinn minn þar sem fíflarnir blómstruðu. Við tíndum fífilblóm og blöð ásamt hundasúrum. Fórum síðan heim og ég blandaði saman brauðmylsnu, kryddi og sesamfræjum, velti hundasúrublómunum upp úr eggi með dálitlu vatni og steikti á pönnu. María bjó til salat og Henna bjó til sósu. Þetta varð ótrúleg veislumáltíð, fífilblómin eru afskaplega gómsæt en við vorum ásáttar um að það væri betra að hafa meira af öðru salati með fífilblöðunum þó við hefðum haft þau í vatnsbaði þónokkra stund. Þau eru dálítið sterk.

En steiktir fíflar eru sumsé herramannsmatur sem ég mun örugglega elda aftur.


Keypti fyrsta forritið hans

Ég sagði fyrir mörgum árum að þegar ég keypti fyrsta forritið sem Gísli Rafn skrifaði að þegar hann yrði frægur myndi ég grobba mig af því að hafa verið hans fyrsti kaupandi. Núna er greinilega rétti tíminn, mynd af honum í blaðinu, hann orðin virtur ráðgjafi í útlandinu stóra og leiðandi á sínu sviði. Mig minnir að hann hafi verið 13 ára þegar ég keypti forritið sem virkaði vel.

Svo nú er bara að vita fyrst ég er í mastersnámi í heimildaljósmyndun hvort hann vantar ekki ljósmyndara á vettvang til að skrásetja hvað verið er að gera. Það væri rosalega fyndið ef hann væri síðan sá fyrsti sem réði mig til að vinna slíkt verk, ég mun allavega vanda mig jafn vel og hann gerði um árið;-)


mbl.is Íslendingur stýrir stuðningi Microsoft við Búrma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert svar - öllum sama?

Var að blaða á vef Alþingis í ræðunum sem ég hef flutt þar og fyrirspurnum sem ég lagði fram. Ég var lengi vel spennt að fá svar við fyrirspurn um laun til fjarkennara til menntamálaráðherra. Ég fór af þingi og leit af og til eftir skjalinu til að vita hvort ráðherrann hefði svarað. Tíminn leið og ég fór að kíkja sjaldnar og amstur hversdagsins tók við.

Nú er nýliðinn 3ja ára afmælisdagur fyrirspurnarinnar en ekki hefur virðulegur menntamálaráðhera Þorgerður Katrín ennþá svarað. Ég verð því að álykta sem svo að það sé ekki hægt að svara þessu og fjarkennarar munu áfram búa við þá kjaraóvissu sem þeir hafa búið við. Furðulegt að Kennarasamband Íslands hafi ekki haft nokkurn áhuga á að koma að samningagerð fyrir þessa kennara sem nú hafa starfað í landinu í 13 ár í það minnsta.

Er öllum alveg sama um þetta mál? Má þá ekki bara sleppa yfir höfuð öllum kjarasamningum fyrir kennara???


Kristján Möller of vinsæll?

Ég hélt að eitthvað hefði gerst sem ég hefði misst af þegar ég sá bloggaravalið hjá 24 stundum í morgun. Hringdi út og suður til að vita hvað hefði gerst sem gerði það að verkum að þrír bloggarar sem sækja að Kristjáni L. Möller samgönguráðherra eru dregnir fram sem bloggarar dagsins. Þegar ég fann út að ekkert hefði gerst fór ég að velta fyrir mér hvort Kristján væri ekki bara orðinn of vinsæll fyrir blaðið og þar þyrfti að slá á. En skoðum hvað bloggararnir segja betur: 

Guðmundur Gunnarsson segir Kristján hafa gert Héðinsfjarðargöng til að komast í sumarhúsið sitt þrátt fyrir að Gunnar viti rétt eins og ég að byrjað var á þeim göngum fyrir löngu. Sumsé bara blaður. Hann heldur áfram með að Kristján beri ábyrgð á þeim vandræðagangi sem hefur verið um Sundabraut þó hann viti eins vel og ég að sá vandi liggur hjá Reykjavíkurborg sem tvístígur eins og dauðstressaður geldingur yfir því hvar gatan á að liggja. Það átti að byrja á þeim vegi fyrir 20 árum og Reykvíkingar verða að fara að hætta þrasi og nöldri og ganga til verka með að klára þá vinnu sem þarf fyrir undirbúning þeirrar götu. Sumsé aftur blaður. 

Þráinn Bertelsson minnir mig á konu sem ég þekkti sem barðist fyrir breytingum á samfélaginu við eldhúsborðið sitt. Já við borðið því hún barði ævinlega svo fast í það þegar henni fannst eitthvað. Hinsvegar barði hún borðið stuttu síðar fyrir einhverju sem var þvert ofaní það sem hún áður hafði sagt. Kristján á sumsé að segja af sér af því að hann stjórnar ekki lögreglunni og fjármálaráðuneytinu þeim tveimur aðilum sem eru að fjalla um málefni vörubílstjóra. Ég verð því að álykta að Þráni finnist ef til vill ákjósanlegt að Kristján stjórni bara öllu. Ef hann geri það ekki þá eigi hann barasta að segja af sér.

En niðurstaða mín af lestri þeirra kumpána sem eru í 24 stundum í dag er sú að Kristján L. Möller sé bara of vinsæll og beiti hinni hefðbundnu íslensku aðferð að passa uppá að þeim sem gengur vel séu barðir dálítið. Kristján þolir það ágætlega og því verð ég að komast að þeirri niðurstöðu að við megum bara vel við una með samgönguráðherrann okkar.


Skólauppreisn: Allir út að trimma

Þegar ég var í Álftamýrarskóla sem barn varð uppreisn í grunnskólum Reykjavíkur. Einhverra hluta vegna byrjuðu nemendur í skólum austast í borginni að rjúka út úr skólanum að næsta grunnskóla og sátu þar og kyrjuðu "Allir út að trimma" þar til nemendur þess skóla ruku út. Kennarar og skólastjórnendur reyndu að stöðva sína nemendur við dyr og glugga en allt kom fyrir ekki nemendur struku úr skólanum og fóru í lið með hinum að næsta grunnskóla. Þar var hrópað "Allir út að trimma" þar til bættist í hópinn. Ég gleymi aldrei starfsmönnum Álftamýrarskóla sem reyndu allt hvað þeir gátu að halda börnunum inni, stóðu í dyrunum en krakkarnir skriðu milli fótanna á þeim og til hliðar við þau. Líklega var síðan best að vera ekki í vegi fyrir þessari stórkostlegu skólauppreisn. Svo kom mynd í Mogganum - alveg ný upplifun að taka þátt í fréttnæmum atburði.

Mig minnir að hópurinn hafi síðan marserað niður Laugaveg en allavega endaði hópurinn á Austurvelli og stóð þar hrópandi fyrir utan Alþingishúsið "Allir út að trimma".

Ég man að á þessum tíma var átak í gangi til að fá fólk til að hreyfa sig, sögnin "að trimma" var nýkomin til sögunnar.

Ég er að lesa um Bakhtin og um karnival í samfélögum og þá minntist ég þessarar stóruppreisnar sem ég tók þátt í. Ég vissi ekki þá og ekki enn hver tilgangurinn með þessu var en það var óskaplega skemmtilegt. Brjóta af sér reglur og venjur skólans, strjúka og vera í hópi annarra sem skemmtu sér og hrópuðu algerlega hugsunarlaust þetta slagorð "allir út að trimma".

Ég hef ekki hitt neinn lengi sem man eftir þessu og engan sem veit hvernig á þessu stóð yfir höfuð en ég vildi gjarnan heyra í öðrum sem gengu þessa baráttugöngu fyrir frelsinu til að hreyfa sig;-)


Kokteilhristarar til sölu?

frá veðurstofunni Sagan segir að veitingamenn á Akureyri séu nú í óða önn að taka saman kokteilhristara sína og fara með þá á nytjamarkaðinn hjá Hjálpræðishernum. Þá þarf ekki lengur eftir þennan titring sem er í firðinum.
mbl.is Skjálftahrina í Eyjafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband