Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þjóðsöngurinn í símabið

Ég þurfti að hringja í eitt ráðuneytanna í dag og þegar var verið að leita að þeim sem ég vildi tala við ómaði tónlist. Ég horfði ráðvillt út í loftið því eyranu á mér ómaði "Eitt eilífðar smáblóm" og ver að viðurkenna að mér brá. Hvernig gat staðið á þjóðsöngnum í símabið. Í gegnum huga mér leiftraði sú skyndilega hugsun að eitthvað rosalega mikið meira hefði gerst sem ég hefði ekki frétt af. Ég hafði jú ekki lesið fréttir í hálftíma. Orðunum "Guð blessi Ísland" brá fyrir og ég skellti mér inn á fréttasíðu. Ekkert gaf til kynna sem passaði við tónlistina "með titrandi tár" og ég andaði léttar. Þegar ég fékk samband við afgreiðsluna aftur þá spurði ég hvernig í ósköpunum stæði á því að þjóðsöngurinn væri meðal þeirrar tónlistar sem væri spiluð í símsvörun en því var ekki hægt að svara því tónlistin er stillt af í stjórnarráðinu.

Mér þætti vænt um að næst þegar ég bíð eftir sambandi við opinbera stjórnsýslu að heyra eitthvað annað. Ég er ekki sátt við að þjóðsöngurinn sé símabiðtónlist.


Skömmin

Erfiðasta tilfinningin sem ég hef verið að fást við í dag er skömmin. Ég skammast mín fyrir að íslenskir menn hafi gengið svo hart fram í öðrum löndum að þeir hafa svert nafn landsins og þjóðarinnar. Ég hef víða farið og margt séð, í öllum löndum mætti maður virðingu, forvitni að vera frá svo litlu landi og hlýlegum móttökum.

Fyrir nokkrum árum var ég á ráðstefnu í Puerto Rico. Sonur vinkonu minnar þarlendrar hafði staðið sig afburðarvel í háskóla og hlaut setu sem skiptinemi í bandarískum háskóla vegna hæfileika sinna einn vetur. Þar mætti hann hinsvegar andúð vegna þjóðernis síns og var ráðvilltur og jafnvel dálítið reiður að mæta þessum móttökum einungis vegna þess hvaðan hann var. Ég man eftir að hafa setið við virkið San Felipe del Morro og horft á þennan unga mann virða fyrir sér landið sitt sem fyrir mér var sem óraunveruleg paradís. Þá hugsaði ég hversu erfitt það hlyti að vera að mæta vantrú og andúð byggða á því hvaðan maður er.

Nú velti ég fyrir mér hvort ég mæti næst vantrausti, andúð eða háði þegar ég segist vera frá Íslandi. Er búið að taka frá mér að geta sagt með stolti "ég er frá Íslandi" og maður eyði frekar talinu. Hætti að segja frá kostum og göllum en verði þess í stað að þola svipaða andúð byggða á fordómum eins og ungi pilturinn frá Puerto Rico sem enganvegin átti það skilið.

Hvernig lagar maður mannorð heillar þjóðar? Segir þessi færsla söguna?


Hugsum um fólk

Nú eru erfiðir tímar sem leggjast misvel í fólk og því nauðsynlegt að hyggja vel að andlegri heilsu landsmanna til að takast á við þau verkefni sem blasa við.

Börn eru hugsandi fólk og því skiljanlegt að þau hafi áhyggjur af ástandi sem þau skilja ekki á sama tíma og foreldrar þeirra eru með miklar áhyggjur. Þar sem ég er í skólanefnd Akureyrarbæjar hef ég skrifað fræðslustjóra og skólanefnd bréf þar sem ég fer þess á leit að kallaður verði saman fundur skólastjórnenda og námsráðgjafa til að ræða hvernig best verður áhyggjum barna og unglinga þessa dagana. Við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja þeim traust umhverfi.

Við þurfum einnig að skoða málefni eldri borgara, ræða við þá og skoða hver þeirra staða er. Hvar er sparnaðurinn þeirra, er hann e.t.v. á einhverjum verðbréfasjóði sem hefur orðið fyrir áföllum. Nauðsynlegt er fyrir öldrunarstofnanir Akureyrarbæjar að skoða þessi mál vel.

Þar sem Akureyrarbær hefur með heilsugæslu bæjarins að gera þarf að skoða markvisst hvort auka þurfi þjónustu heilsugæslunnar, bjóða upp á viðtöl eða annað fyrir þá sem nú verða fyrir áföllum.

Í framhaldinu þurfum við að skoða vel framkvæmdir bæjarins og önnur viðfangsefni, hvernig best verður að þeim staðið í núverandi stöðu. Áætlaðar gjaldskrárhækkanir þarf að endurskoða í ljósi stöðunnar.

Viðfangsefnin eru mörg, stór og smá fyrir fjölmarga aðila. Það er ekki nóg að sitja og horfa á fréttir heldur þarf hver og einn að skoða nærumhverfi sitt. Ræða við börnin hvort sem þau eru ung eða fullorðin sem og foreldra eða aðra þá sem næst standa.

Nú er fyrst og fremst nauðsynlegt að hugsa um fólk.


Allir glaðir?

Nú er spurning hvort flokkurinn sjálfur sætti sig við afstöðu þingflokksins eða hvort flokkurinn muni klofna í kjölfarið. Jón Magnússon hefur greinilega komið ár sinni vel fyrir borð í nýjum flokki og hefur sett lit sinn á starf hans.
mbl.is Jón Magnússon þingflokksformaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytti Morgunblaðið skólakerfinu?

Vegna umræðu um skrif Matthíasar Johannessen rithöfundar leit ég inn á vefsíðu hans og dáðist að dugnaði við skrifin. Nú hef ég ekki lesið þarna mikið en greinilega ástæða til því skrif hans kasta nýju ljósi á stjórnsýslu Íslands. Hlutverk blaðsins við stjórn skólakerfisins kemur fram í þessum orðum:

 "En hundstungan  er næm og í þessu tilfelli er hún að sleikja upp  álygar sem reynt var að nota gegn mér fyrir nær hálfri öld,því að Alþýðublaðið kastaði þessari lygaþvælu fram á sínum tíma til að koma á mig höggi,þegar  Morgunblaðið var í miðri baráttu til að endurbæta fræðslukerfið og þar með landsprófið.
Með miklum og góðum árangri.

En þá voru svona neðanbeltishögg notuð,ef því var að skipta, eins og í dag. " Tengill í tilvísun.

Samkvæmt þessu hefur dagblað í landinu hlutverk við skilgreiningu á fræðslukerfi landsins og hvernig því er háttað. Nú væri fróðlegt að vita meira um þessa baráttu og hvert hlutverk Morgunblaðsins var í að setja vinnureglur fyrir menntakerfi landsins.


Konur og Húsavík

Ég hef aldrei séð jafn margar konur á pólitískum fundi á Húsavík og í kvöld. Það var ánægjulegt en líklega má skrifa það að hluta til á Dofra sem þóttist viss um að þarna yrði bara haugur af körlum en fáar konur. Að vísu tóku þær ekki formlega til máls en þær mættu.

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra stóð sig afskaplega vel á fundinum, var vel undirbúin og lýsti sínum ákvörðunum skilmerkilega. Heimamenn töldu ekki réttmætt að framkvæmdir vegna orkuöflunar álvers á Bakka þyrfti í heildstætt umhverfismat þegar Helguvíkurframkvæmdir þyrftu þess ekki. Ástæður þess skýrði Þórunn en augljóst að hér er um lögfræðilegt atriði að ræða. Best væri ef allir sætu við sama borð en munur var á stöðu framkvæmda þegar kæra barst og því er afgreiðslan mismunandi.

Verkið mun tefjast við þetta en það byggist alfarið á framkvæmdaaðilum hversu mikið það er og nú er bara að sjá hvort menn þæfa málið á þeim vettvangi eða bretta upp ermar.

Ég vildi að konurnar á Húsavík hefðu tjáð sig með afgerandi hætti í stað þess að láta karlana alfarið um það mál. En við samfylkingarmenn getum verið stolt, allavega var ráðherrann kona;-)


Vegur um hraun og drasl í hverum

 

Ég er ein þeirra sem hef mikla ánægju af náttúrunni, ferðast um og tek myndir. Fyrir rúmu ári hóf ég meistaranám í ljósmyndun við Academy of Art University í San Francisco og hef nýverið byrjað á lokaverkefninu mínu sem fjallar um nýtingu á heitu vatni í Norðaustur kjördæmi frá kjördæmamörkum í vestri til austurs til og með Kópaskeri. Nú nýti ég tímann til að þvælast, leita að borholum og ummerkjum um nýtingu þessarar hreinu orkulindar.

Vegur yfir nýja hraunið í Gjástykki

Í vikunni var ferðinni heitið að Þeistareykjum en ég hafði hlakkað til að mynda þar. Þar sem engir vegir eru merktir þá viltist ég af leið en fannst vegurinn furðulega góður. Hann hlyti að enda á einhverju merkilegu. Viti menn, áður en ég vissi var vegurinn kominn að nýja hrauninu í Gjástykki og tonn af sandi komin ofan í hraunið og vegurinn lá áfram yfir nýja hraunið meðfram fallegum hraunreipum, hraunám og yndislegum hraunmyndunum. Ég stóð þarna með myndavélina og slóst við hugsanirnar um hversu heppin ég væri að komast svona í mitt hraunið til að sjá hvað það væri fallegt og því að þarna væri vegur yfir hraunið án þess að ég vissi til þess að umhverfismat hefði átt sér stað.

Áfram hélt ég og fyrr en varði var ég komin að borholu í miðju hrauninu. Þar sem ég veit að borarnir geta borað skáhallt, og þar með undir hraunið ef nauðsynlegt var að fara þangað varð ég dálítið undrandi á því að menn færu beint í gegnum hraunið. Síðan hélt ég áfram og fann aðra borholu austan við hraunið og undraðist  af hverju ekki var farið að þeirri holu austanfrá því þá hefðu menn ekkert þurft yfir stóran hluta hraunsins.

Enn liggur þarna slanga fyrir vatn, líklega 5 kílómetra leið yfir hraunið sem hefur verið notuð við borunina.

Þungt hugsi hélt ég áfram upp að Þeistareykjum og dáðist að skjannahvítum leirhverum, og fann Hver á Þeistareykjumorkuna í jörðinni undir fótum mér. Þegar upp að gangnamannahúsi var komið fór ég að skoða hverina þar og þá varð ég barasta geðvond. Ofan í tveimur hverum voru flöskubrot og plastúrgangur. Látum vera plast sem var yfir lögn inn í gangnahúsið en í kring var hræðileg umgengni. Í kringum borinn og borholur virtist vel um gengið en þarna við húsið var sorglegt að horfa á hverina.

Áfram hélt ég niður á Húsavík en þar voru miklar vegaframkvæmdir á uppbyggðum veg. Ég undraðist enn að undirlagið og byggingin á veginum virtist vera ótraust og spurðist fyrir. Þá var mér tjáð að ekki hefði verið gert verkfræðilegt skipulag af fagmönnum á þessum vegi sem líklegt má telja að verði vinsæll vegur fyrir ferðamenn. Getur þetta verið satt? Er verið að byggja veg sem ekki uppfyllir ítrustu kröfur um vegagerð í landinu? Á að fara með ferðamenn í rútum eftir slíkum vegi til að skoða hveri á Þeistareykjum? 

Eins og menn vita þá hef ég alla tíð verið afar hlynnt orkunýtingu á Þeistareykjum til atvinnuuppbyggingar á Húsavík. En ég viðurkenni að mér sveið dálítið eftir þessa ferð. 

Ég sting hér með tveimur myndum sem ég tók í ferðinni sem sýna hvað það er sem ég sá. Takið eftir hraunánni hægra megin við veginn í nýja hrauninu og girðingartægjunni. Ég hefði aldrei séð hraunána án vegarins... en...


Ótrúlega skemmtilegt

Það var virkilega gaman á súpukvöldinu og ég fékk bestu fiskisúpu sem ég hef smakkað þetta kvöld. Ekki var síður skemmtilegt að hitta fullt af fólki sem ég hef ekki séð í fjölda ára og þar á meðal tvo sem ég hef ekki séð síðan í Álftamýrarskóla í kringum 1970!

Mæli með þessu kvöldi sem var einstaklega vel úr garði gert hjá bæjarbúum. Síðan fékk maður haug af knúsi og knúskortin voru brillíant.


mbl.is Um 20 þúsund manns á fiskisúpukvöldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúleg eljusemi

Ég hef alltaf dáðst að því fólki sem fer þennan hring og reynt að telja mér trú um að komast í nógu gott form til að fara með. Niðurstaðan er alltaf sú sama að ég sit við tölvuna og læri í staðinn og er bara bústin og falleg. Hinsvegar væri vit í því að gera svona innisetupúkum eins og mér mögulegt að komast upp á fjall í skíðalyftu yfir sumartímann. Þetta gerði ég í Sviss og var afskaplega gaman að virða fyrir sér fagurt útsýni af háum fjallstindi án teljandi fyrirhafnar. Þetta væri mjög gaman að gera hér í Hlíðarfjalli en nú er ríkið að gera upptækt hluta af því svæði og þar á meðal vatnslindir Akureyrar svo spuring er hvort Akureyringar fái ráðið uppbyggingu á því svæði.
mbl.is Fjölmenni tekur þátt í Glerárdalsgöngu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt lag og ljóð

Loksins er ég farin að semja lög aftur, er í áfanga í skapandi skrifum í skólanum til að geta skrifað texta á ensku við myndirnar mínar. Hef ekki gefið mér tíma síðan 2006 að semja og það var frábært að drífa í þessu aftur því tónlistin gefur mikið. En allavega ég samdi nokkur ljóð og lag við eitt þeirra. Þar sem skólinn minn er í San Francisco er ljóðið á ensku og ef einhver vill heyra lagið þá er það hérna.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband