Leita í fréttum mbl.is

Stefnumótun niðursveiflu

Ég hef tekið þátt í stefnumótun míns flokks bæði í landsmálum og málefnum sveitarstjórna. Nú þegar við blasir að skera niður og breyta rekstri gífurlega við skert fjárráð á báðum stjórnsýslustigum þá er flókið að velja hvað ætti að skera niður og hvar ætti að sækja fram. Stefnumótunin var fyrst og fremst miðuð við vöxt og uppbyggingu, þ.e. bæta við þjónustu við fólk og fyrirtæki en fjallaði ekki um hvaða þjónustu ætti að hætta að veita.

Flest heimili í landinu hafa farið nákvæmlega yfir útgjöld og ákveðið hvar er skorið niður, hvað menn ætla að hætta að gera o.s.frv. Sama gera ríki og sveitarfélög. Hratt er brugðist við og sama hvar ber niður það bitnar alltaf á fólki með einum eða öðrum hætti. Hinsvegar vantar stefnumótun til lengri tíma um hvernig við viljum sjá samfélagið við breyttar aðstæður. Ég tel að við slíka stefnumótun eigi að virkja sem flesta og ræða hvað er best að gera.

Ég sit sjálf í skólanefnd á Akureyri og þar var gripið til þess ráðs að virkja skólastjóra til að ákvarða hvar væri hægt að skera niður án þess að segja upp starfsmönnum. Þetta gerðu þeir síðan í samstarfi við sína starfsmenn og því ríkir sátt um þann þátt niðurskurðarins. En nú vitum við ekki hversu langt þrengingarnar ganga og þó fjárhagsáætlun ársins sé tilbúin er líklegt að hana þurfi að endurskoða síðar þó allir voni að svo sé ekki.

Því tel ég að allir stjórnmálaflokkar í landinu þurfi að vinna hörðum höndum að stefnumótun með breyttan fjárhag í huga í virku samstarfi við fólkið í landinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband