Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Samfylkingin í verki

Kosningin í Hafnarfirði sýnir fyrst og fremst vinnubrögð Samfylkingarinnar sem er óhrædd við að beita íbúalýðræði og hlýta niðurstöðum. Gróusögur og rógburður um hættur sem felast í því að fela Samfylkingunni völdin í landinu lyppast niður. Við völtum ekki yfir allt sem fyrir er án þess að hlusta á nokkurn mann heldur vinnum lýðræðislega og gerum mönnum kleift að tjá sig. Það hafa Hafnfirðingar gert og við getum öll verið stolt af þeim. Hafnfirðingar mættu vel á kjörstað, nýttu sér íbúalýðræði og voru óhræddir við að taka ábyrgð á því sem er að gerast í þeirra sveitarfélagi.

Rétt er að þakka Hafnfirðingum fyrir vönduð og fagleg vinnubrögð sem eru til fyrirmyndar.


mbl.is Lúðvík: Sögulegar kosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð niðurstaða

Mjótt var á mununum en niðurstaðan er góð að því leiti að hún krefur okkur öll til að setjast niður og sjá hvert við viljum halda. Við þurfum að taka okkur tíma í að skilgreina hvaða náttúruauðlindir við viljum vernda og hverjar við viljum nýta. Þetta hefur ekki verið gert heldur anað áfram að því er virðist oft hugsunarlaust.

Ég er stolt af Samfylkingunni í Hafnarfirði að beita íbúalýðræði við ákvörðun þessa máls hún ljáir alþýðu manna rödd sem er lýðræðinu mikilvæg. Niðurstaðan er fengin og við hana verður staðið eins og bæjarstjórinn Lúðvík Geirsson hefur þegar sagt.

Nú er mikilvægast af öllu að ræða saman sem þjóð um hvað við viljum vernda og hvað við viljum nýta. Sumt erum við algerlega sammála um, annað er okkur ókunnugt og þarf því að kynna vel. Með því að skoða málin vel ætti ekki að taka okkur langan tíma að ræða okkur að niðurstöðu. Ég hlakka til þess verks og vona að menn reyni ekki að koma sér hjá því.


mbl.is Hafnfirðingar höfnuðu stækkun álversins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Táknmálið er móðurmál

Hvernig stendur á því að það er ágreiningur um að táknmál er móðurmál þeirra Íslendinga sem ekki heyra nægilega vel til að ná góðum tökum á íslensku. Það er mikilvægt að taka þetta mál föstum tökum.
mbl.is Ungir jafnaðarmenn vilja að allir Íslendingar verði viðurkenndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjú ár???

Ég hef æ meiri áhyggjur af hversu vanmáttugt samkeppniseftirlit er á Íslandi. Niðurstaða sem berst svo löngu síðar er í raun einskis virði og veitir ekki aðhald á markaði. Fyrirtæki vita að það er enginn sem mun geta lagt stein í götu þeirra ef þau vilja hafa rangt við. Til að halda heilbrigðu markaðskerfi þarf að tryggja eftirlit sem veitir í raun aðhald og tryggir að við neytendur búum við heilbrigt og sanngjarnt samkeppnisumhverfi.
mbl.is Samkeppniseftirlit brást segir fyrrum forsvarsmaður Iceland Express
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óstjórn hindrar Evruupptöku

Auðvitað eru það algerar ranghugmyndir að hægt sé að taka upp evru hvað þá að það geti leyst nokkur vandamál því vandamálin eru það mikil að við erum ekki evrutæk. Óstjórn í fjármálum þjóðarinnar er þvíumlík að við stöndumst ekki þær kröfur sem gerðar eru fyrir því að nota þennan gjaldmiðil.

Geir misskilur vísvitandi ábendingar formanns Samfylkingarinnar, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, þegar hún er að benda á að við ættum að koma fjármálum þjóðarinnar í það stand að það væri mögulegt - ef við vildum það.

Núna stendur okkur ekkert til boða en næg vandamál í fjárreiðum ríkisins sem væri nær fyrir Geir Haarde að snúa sér að í stað þess að vera að geðvonskast yfir ranghugmyndum um Evru. Hans eru ranghugmyndirnar fyrst og fremst, hann trúir því að fjármál ríkisins undir hans stjórn séu í lagi.


mbl.is Geir: Ranghugmyndir að upptaka evru leysi öll vandamál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jómfrúarræðan mín

Jómfrúarræðan mín á Alþingi fjallaði einmitt um 3. kynslóð farsíma á sínum tíma. Renndi yfir hana og er alveg sammála mér frá því fyrir þremur árum. Það er galli á lögunum að einungis eigi að senda til 60% íbúa á ákveðnum landsvæðum. Á mínu svæði þ.e. Norðurlandi eystra og Austurlandi (undarlegt að nota ekki bara kjördæmið) er hægt að ná 60% dekkun á tiltölulega afmörkuðu svæði. Í raun búa um 60% íbúanna við Eyjafjörð og því hægt að dekka hann en ekki skipta sér af öðrum. Ég hef því miður ekki skoðað útboðsreglurnar sjálfar og veit því ekki hvort þarna var hert meira á til að tryggja betri dreifingu. Það hefði verið allt í lagi að setja þrep þ.e. að fyrir ákveðinn tíma væri hlutfallið 60% en síðan gera kröfur um aukningu.

Hvað um það, þá er það mjög spennandi að fá þá tækni sem felst í 3. kynslóðinni og verður gaman að sjá hver þróunin verður. Sérstaklega hvaða efnisveitur munu skjóta upp kollinum og hvaða efni þær dreifa því með þessari tækni verður hægt að senda talsvert fyrirferðarmeira efn en áður var t.d. myndbönd, tónlist og fleira. Tækniþróun er alltaf spennandi og því eru skemmtilegir tímar framundan á þessu sviði.


mbl.is Síminn kominn með tíðniheimild fyrir þriðju kynslóð farsíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig ætli hún hljómi?

Margar eru reglugerðirnar sem við fáum í gegnum EES samninginn og auðvitað eigum við starfsmenn hjá EFTA sem eiga að fylgjast með því að lögformi þessara reglugerða sé fullnægt hér á landi. Hinsvegar svíður mig alltaf að við erum ekki fullgildir þátttakendur í samningum þannig að við komum sjónarmiðum okkar á framfæri. Við erum svona litlir labbakútar Evrópubandalangsins í gegnum EES samninginn.

Hvenær ætlum við að haga okkur eins og fullorðið land og skoða Evrópusambandsaðild skynsamlega og geta byggt afstöðu okkar á þekkingu?


mbl.is ESA sendir rökstutt álit um að Ísland hafi ekki tekið upp löggjöf um áburð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þörf ályktun

Gott að fá þessa ályktun til að styðja þetta mál. Alveg sama hvernig við skoðum landakortið þá er höfuðborgin ekki í miðju Íslands.

Ég fer hinsvegar ekki ofan af þeirri skoðun að ráðherra sé búinn að samþykkja, bak við tjöldin, að þyrla komi til Akureyrar þar sem Kristján Þór Júlíusson frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu er búinn að panta sér nokkur prinsessuviðtöl þar sem hann krefst þyrlunnar. Svo mætir ráðherrann og þeir standa saman Sjálfstæðismennirnir sem allt geta. Blessuð verið þið, þessi þyrla er örugglega komin, skynsamlegt og gott og frábært. En mikið væri gott að vera laus við leikritið í kringum það, það á ekki að spila með þegna landsins á þennan hátt það er beinlínis niðurlægjandi.


mbl.is Læknar vilja þyrlu á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr hverju dó hann?

Mér finnst vanta í þessa frétt hvort kransæðasjúkdómurinn dró manninn til dauða eða eitthvað annað. Tryggingarfélagið getur með réttu sagt að upplýsingarnar hafi verið falsaðar um kransæðarnar og eftir því sem ég best veit eru tryggingafélög tilbúin til að tryggja restina af fólki þó einhver hluti sé bilaður.
mbl.is Tryggingafélag þarf ekki að greiða líftryggingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfisstefna

Ég undrast æ meira hversu fastir menn eru í því að virkjanir séu eina málið þegar ræða á umhverfismál. Ef menn eru til í að lýsa því yfir að þeir séu á móti álverum þá trúa þeir því á sama tíma að þeir séu umhverfisverndarsinnar. Það er hárrétt að það er allt of mikil áhersla á álver í landinu og full ástæða til að hugsa sig tvisvar um álverin eru nú tvö og verða brátt þrjú. Þá er ástæða til að staldra við og huga að markvissri náttúruverndarstefnu eins og við Samfylkingarmenn höfum gert og birtist hér.

Ég vildi gjarnan sjá menn fara að ræða umhverfismál í víðara samhengi, átak í sorpmálum, átak í samgöngumálum, átak í uppgræðslu, endurskoðun neyslunnar og margt fleira. Víðtæk vinna í tengslum við Staðardagskrá 21 er grundvallaratriði við þurfum að taka þetta alvarlega.

Til að losna við ásókn landsbyggðarmanna í verksmiðju þarf einfaldlega að verða sátt um atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Höfuðborgarbúar hafa ekki verið tilbúnir til þess heldur skara gráðugir eld að eigin köku og eru svo steinhissa yfir því að menn reyna allt sem þeim dettur í hug til að lifa af á landsbyggðinni. Ingi Rúnar Eðvarðsson prófessor við Háskólann á Akureyri skrifaði athyglisverða grein um misskiptingu launa milli landsbyggðar og höfuðborgar. Hvenær er fólk til í að berjast fyrir landsbyggðinni?

Alls staðar blasa málin við, á Húsavík er fjarvinnslufyrirtækið Landvist sem hefur verið með verkefni fyrir Þjóðminjasafnið en "gleymist" hjá menntamálaráðherra þegar verið er að tryggja fjárveitingar í verkefni. Íbúðalánasjóður niðurgreiðir húsnæði til að gæta þess að selja sjálfur en aðrir ekki þar sem hann getur afskrifað skuldir en heimilin ekki.

Væru menn til að gera landsbyggðinni kleift að lifa af með því að létta skattaáþján af flutningi, auka menntun og koma með skattaívilnanir þá væru menn fyrst að tala af alvöru um það að leysa fólk úr örvæntingarfullri leit að viðfangsefnum til að lifa af. Hví í ósköpunum eru menn ekki til í að byggja neitt upp á landsbyggðinni nema álver - og hvers vegna er eina svarið við því að berjast gegn álverum. Eru menn virkilega svona einfaldir??? Ríkisstjórn Íslands er eitt mesta stórslys sem hefur riðið yfir landsbyggðina á Íslandi.


Næsta síða »

Höfundur

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband