Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Óttalegur kjáni er maðurinn

Það er alltaf jafn leitt að sjá þegar menn óttast það sem þeir þekkja ekki vel og fáfræði er undirrót margra óhæfuverka. Ég hef aldrei skilið af hverju menn þurfa yfirleitt að hafa sérstaka skoðun á kynhneigð fólks, hvernig hún getur yfirhöfuð skipt nokkru máli. Það hryggir mig þegar brotið er á fólki einungis vegna þess hverja þeir elska og hverjum þeir vilja njóta lífsins með. Sárast er þó að sjá þegar menn beita trúarbrögðum sem standa mörgum afar nærri en þekkt er hvernig hægt er að beita þeim til illra verka á mörgum sviðum.

Því er leiðinlegt að sjá trúarleiðtoga trúarbragða sem um margt eru alveg ágæt beita þeim í kjánaskap vegna fáfræði sinnar. Með þessu veikir hann stöðu sína og trúarbragða sinna gagnvart upplýstu fólki og þeim sem skilja að verk manna byggjast ekki á kynhneigð þeirra því þá væri sjálfsagt búið að banna gagnkynhneigð fyrir löngu síðan. Það sér hver heilvita maður.


mbl.is Sadr vill uppræta samkynhneigð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nöldurþjóð

Já við höfum miklu meira að segja þegar við getum látið gamminn geysa um allt sem hægt er að finna að hlutunum heldur en þegar við eigum sjálf að leysa úr málum. Fyrst og fremst endurspeglast íslensk stjórnsýsla í ræðutímanum, umræða um stjórnarfrumvörp fer ekki fram í þingsal af stjórnarþingmönnum. Oftar en ekki semja ráðuneytismenn lögin, stundum að eigin frumkvæði, ráðherra trítlar með frumvarp í þingið og engin innanflokks æmtir né skræmtir. Síðan fá sömu ráðuneytismenn oft það hlutverk að skera úr málum eftir eigin lögum. Ég held að það sé eitt brýnasta stjórnsýslumál á Íslandi að öll lög séu samin á Alþingi en ekki út í einstökum ráðuneytum.

Umræða um málin þarf síðan að fara fram í þinginu, nú er ekki tíminn til að detta í sama farið, var ekki helsta ástæðan fyrir kosningunum að við vildum breytingar? Nöldrandi stjórnarandstaða og þegjandi stjórn er ekki það sem við þurfum svo vonandi verður það verulega breytt þegar þingið fer að starfa af fullum krafti.


mbl.is Ræðukóngarnir eru sestir í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lengsta vinnuvika!

Það er ótrúlegt að Íslendingar séu með lengstu vinnuviku OECD landanna og mikið umhugsunarefni. Er það vega þess að atvinnuþátttaka kvenna er mjög mikil? Eða er það vegna þess að vinnusemi þykir dyggð. Fram kom í yfirvinnubanni fyrir allmörgum árum að menn náðu að framkvæma sömu vinnu á skemmri tíma.

Að vera lengi í vinnunni er talið til dyggða á Íslandi og oft tengt vinnusemi sem er líklega fjarri sanni. Spurningin er hvort það eru ekki heilmörg störf laus ef menn skera niður yfirvinnu hvar sem það er mögulegt. Ég þekki til vinnustaðar sem skar niður starfsmann til að aðrir gætu verið með mikla yfirvinnu. Það er mjög ómannúðleg ráðstöfun að mínu mati og ekki hagkvæm því þar með er atvinnurekandi að fá minni vinnu fyrir meiri peninga. Ekki mikil hagfræði þar á ferðinni.

 


mbl.is Íslendingar meðal hávöxnustu þjóða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlega gamaldags

Framkvæmd kosninga hér á landi er ótrúlega gamaldags og ekki í nokkru samræmi við almenna þróun í landinu né þekkingu landsmanna. Ég beið í biðröð í rúman hálftíma, þegar í kjörklefa kom þá sátu þar þrír einstaklingar til að merkja við að ég væri ég í tvær mismunandi kjörskrár því hér var tvöföld kosning. Tíma tók að fletta möppum, finna heimilisfangið mitt og síðan mig. Svo fékk ég tvo miða, gekk frá mínu atkvæði og setti miða í tvo mismunandi kassa.

Einvertíman var síðan sturtað úr þessum kassa, atkvæðum handraðað, og haugur mann vinnandi við það alla nóttina að telja einn, tveir, þrír ...

Hægur leikur hefði verið fyrir tvo menn, hvorn í sínu lagi að slá inn kennitöluna mína í tölvu, þriðji kanna persónuskilríki og láta mig að því búnu fá auðkenni. Ég hefði getað gengið að tölvu í kjörklefanum, gengið frá minni kosningu og ekki nokkur maður hefði verið að vinna alla nóttina við að telja blöð.

Hér á Akureyri unnu menn samfellt í 20 tíma í undirkjörstjórn með einn og hálfan tíma í matarhlé. Þetta er auðvitað galið!


mbl.is Þörf á að endurskoða kosningalög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Jónína

Eftir að hafa verið í jöfnunarrúllettunni tvennar kosningar þá gleðst ég ómælt yfir því að loksins lenti boltinn hjá okkur Samfylkingarmönnum í Norðausturkjördæmi. Jónína Rós verður frábær þingmaður, skelegg, vinnusöm en umfram allt hlý manneskja sem gott hefur verið að vinna með í stjórnmálum. Okkur hefur vantað að styrkja okkur hér í kjördæminu og betri mann en Jónínu er varla hægt að finna til þess.

Það er nú einfaldlega svo að maður vildi gjarnan sjá alla sína menn á þingi eftir kosningar og því er hundfúlt að Lúðvík Geirsson datt út á endasprettinum. En við Samfylkingarmenn getum vel við unað eftir þessar kosningar og nú er bara að bretta upp ermar og hefja endurreisn samfélagsins.


mbl.is Jónína inn í stað Lúðvíks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auður er ekkert

Atkvæði sem er autt er ekkert í sjálfu sér. Það hefur engin áhrif á stjórn landsins og ef einhver er svo ótengdur veruleikanum að hann veit ekki af óánægju í samfélaginu þá fer örugglega fram hjá honum líka hversu margir skili auðu.

Mér er fyrirmunað að skilja hvað menn telja að komist til skila með auðu atkvæði, auðvitað kemst það til skila að þeir menn vilji fleiri eða önnur framboð en hafa ekki haft dug í sér til að koma þeim á legg sjálfir.

 


mbl.is Höfðu áhrif á röðina á listum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útstrikunarkosningar?

Ég held að þessarra kosninga verði ekki síst minnst fyrir útstrikanir þar sem þær munu áreiðanlega hafa áhrif. Ef einstaklingur er strikaður út af lista fær hann ekki það atkvæði í pottinum og það getur haft veruleg áhrif eins og við sáum í síðustu kosningum. Þannig að ég held að við vitum ekki ennþá hverjir eru líklegir til að verða alþingismenn.
mbl.is Sjálfstæðisflokkur tapar miklu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Susan Boyle, blaut tuska í andlit snobbhænsna

Hún gekk inn á sviðið, kubbsleg, gamaldags en dálítil skellibjalla. Hún gekk út stjarna. Barn sem varð fyrir skaða í fæðingu, átti erfitt með að læra, hugsaði um mömmu sína sem dó nýverið ríflega níræð. Eftir hvatningu móður sinnar lætur hún loks drauminn rætast og sýnir hæfileika sem eru fágætir. Þetta minnir okkur á að þó við séum ef til vill ekki snjöll á einu sviði þá getum við svo sannarlega verið það á öðru.

Háskólapróf, sparigalli, rúnnaðar útlínur og krúttlegt andlit eru umbúðir, innihaldið er hvað við getum gert. Susan Boyle minnir okkur á það að hvað sem utanumhaldinu líður þá er það sem við getum í rauninni gert það sem skiptir máli.


mbl.is Oprah býður Susan Boyle í þátt sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég skil ekki...

Sko, ef ég bið Lillu frænku um pening fyrir Kattavinafélagið og hún talar við Gunnar mann sinn um málið og hann er svosem til í að láta kettina hafa pening, þá myndi ég halda að ég hefði haft samband við einhvern sem útvegaði þurfandi köttum pening.

Verði Lilla og Gunnar of rausnarleg þá hef ég ekkert með málið að gera því ég fól Lillu frænku málið og þau hjónin verða auðvitað að hemja sig í gjafmildi til katta. Ég nefninlega vissi ekkert hvað þau hjónin gáfu mikið, Kattarvinafélagið varð ekkert vart við peninginn, alls ekki framkvæmdastjórinn né aðrir sem að málinu komu.

En einhver gat notað peninginn án þess að bera ábyrgð á honum. Hmmm, ég skil þetta ekki...


mbl.is Söfnuðu fé fyrir flokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má lögsækja foreldra?

Nú er spurning hvort ekki fari að verða grundvöllur fyrir því að börn lögsæki foreldra sína fyrir að skila til þeirra gölluðum erfðaefnum. Foreldri sem er af einhverri þeirri ætt sem ekki hefur sín gen 100% hrein getur þar af leiðandi þurft að punga út fyrir þá ósvinnu að hafa farið út í barneignir með gallað erfðaefni. Hjón gætu þurft að láta kanna erfðaefnin og síðan ef annar aðilinn er ekki með algerlega hreint og gallalaust erfðaefni þá þurfi að versla sér egg eða sæði úr gallalausum einstaklingi.

Svo fer að verða spurning hvað er gallalaust.


mbl.is Í mál vegna gallaðra sæðisfruma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband