Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Í hvað verður orkan notuð?

Það var löngu komið á hreint að úrskurður Þórunnar hindraði í engu framkvæmdir á Þeistareykjum. Ég velti hinsvegar fyrir mér hvað gerist ef það kemur annar orkukaupandi sem vill nýta orkuna á svæðinu í eitthvað allt annað. Mér vitanlega hefur Alcoa ekki einkaleyfi á þessari orku og því gætu Þeistareykir ehf og Landsvirkjun ákveðið að halda áfram séu líkur til þess að hægt sé að selja orkuna.

Þá er spurning hvort þeir fjölmörgu sem hafa bent á nauðsyn þess að nýta orkulindir landsins í annað en álver geti nýtt þessa seinkun til að byggja eitthvað annað upp. Þá er spurning hvað það gæti verið og hver getur staðið fyrir því.


mbl.is Fresta rannsóknarborunum að Þeistareykjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lærum af þessu!

Það er líklega mesti sannleikurinn í þessum orðum Söru þessa dagana. Ef við vælum út í eitt verður lítið úr verki. Það er um að gera að einbeita sér að verkum!
mbl.is Sara: Þær vældu út í eitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tómstundaþingmenn - hafa þeir tíma fyrir þjóðina?

Alþingismenn eru í sveitarstjórnum, reka fyrirtæki, stjórna félögum og stunda nám, ótrúlega margir þeirra eru einfaldlega ekki í fullri vinnu sem alþingismenn. Lýðræði er ein grunnstoða samfélagsins og við veljum á kjördag fólk til að vinna fyrir samfélagið allt. Í stað þess að menn vinni af heilum hug fyrir samfélagið eftir kjör halda menn áfram í hinum og þessum störfum hér og þar um samfélagið. Hafa þeir tíma fyrir þjóðina?

Er þingmennska tómstundastarf? Væru bændur t.d. til í að fá tómstundabændum í hendur stjórn landbúnaðar?


Lækka til að sýna ofurhækkun?

Var það tilgangur Seðlabanka Íslands að sýna fram á að IMF væru verri en þeir með því að lækka stýrivexti í 12% úr 15,5% rétt áður en kröfur IMF koma upp á borðið. Vissu þeir ekki mætavel þegar þeir lækkuðu vextina að vaxtahækkun kæmi með aðgerðum IMF? Er ekki hækkunin í raun og veru hækkun úr 15,5% í 18%? Þá er hún 2,5% sem er allt annað mál. Hver er að leika sér með tölur? Ég bara spyr.

 


mbl.is Erfitt fyrir fólk og fyrirtæki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almannavarnir í molum?

Í júní s.l. staðfesti Alþingi lög um almannavarnir í landinu. Oftast hafa menn tengt þessi lög við náttúruhamfarir af ýmsu tagi en fyrst og fremst snúa þau að almannaheillum.  

Markmið almannavarna er að undirbúa, skipuleggja og framkvæma ráðstafanir sem miða að því að koma í veg fyrir og takmarka, eftir því sem unnt er, að almenningur verði fyrir líkams- eða heilsutjóni, eða umhverfi eða eignir verði fyrir tjóni, af völdum náttúruhamfara eða af mannavöldum, farsótta eða hernaðaraðgerða eða af öðrum ástæðum og veita líkn í nauð og aðstoð vegna tjóns sem hugsanlega kann að verða eða hefur orðið.

Nú er ljóst að þeir erfiðleikar sem ganga yfir landið eru af mannavöldum hvaða manna sem um ræðir og því ljóst að þessi lög ættu að virka. Síðast þegar ég vissi hafði almannavarna- og öryggisráð þjóðarinnar ekki hist eða rætt hvernig ætti að vinna með það ástand sem nú er uppi. Ljóst er að í ráðinu eru fjöldi ráðamanna sem gætu stillt saman strengi og nýtt sameiginlega krafta til að vinna betur með heildstæð viðbrögð vegna þeirra verkefna sem þarf að vinna þessa dagana.

Eittdæmi er verkefnið um hver fær fyrstur gjaldeyri þegar lítill gjaldeyrir er fyrir hendi. Eru það sjúkrahús til að geta sinnt lækningum, eigum við þá að láta allar lækningar ganga fyrir öllu öðru? Hvað með fjármagn til að viðhalda stoðkerfum þjóðarinnar s.s. vegakerfi, fjarskiptum, viðskiptum banka, eða mat?

Er það virkilega svo að starfsmenn Seðlabanka Íslands þykja svo afburða góðir að þeir einir geti metið forgang á hvernig gjaldeyrir er notaður og að almannavarnir séu ekki til í landinu né sé talin ástæða til þess að vera að sinna þeim þessa dagana? Hver sér um samræmdar aðgerðir sem snúa að almannaheillum? Eru ráðherrar að slást sín á milli við starfsmenn Seðlabanka um hvað kemur inn í landið?

Hver samræmir aðgerðir varðandi áfallahjálp? Er það bara fyrirbæri sem menn telja að hægt sé að nota þegar þjóðin verður fyrir náttúruhamförum? Er áfallið minna eða meira hvort heldur þú missir heimili þitt og eigur í jarðskjálfta eða vegna fjármálahamfara?

Þarf þjóðin enga samræmda áætlun í fjármálahamförum? Eða eru almannavarnir þjóðarinnar í molum eftir ný lög?


Hvað get ég gert?

Tíminn líður og fólk vill svör en svör virðast ekki til. Engin patentlausn ekkert hókus pókus, verkefnið hverfur ekki. Menn missa kjark og spyrja sig að því hvað þeir geti nú ekki gert en þessu þarf að snúa við og spyrja: Hvað get ég gert?

Eigur manna eru grunnstoð lífs þeirra og því ekki furða að erfitt sé þegar enn er óljóst hversu sterkar þær eru. Ekki einungis eigin eigur heldur eigur samfélagsins sem við reiðum okkur á. Menn eru að vinna í málum en biðin er löng og óróleiki grípur um sig, þegar lítið er vitað er auðvelt að ímynda sér og ímyndir geta tekið völdin. Til að beina orkunni í annan farveg er því nauðsynlegt fyrir hvern og einn að spyrja sig: Hvað get ég gert?

Óvissa getur skapað depurð og reiði en hvorug tilfinninganna er gagnleg hvorki manni sjálfum eða öðrum. Finni menn sér gagnlegt viðfangsefni til að vinna með sem nýtist fjölskyldu, vinnustað eða samfélaginu gagnast það ekki bara þeim sem nýtur verksins heldur einnig þeim sjálfum er verkið vinnur. Knús, kossar, hlýja og handabönd eru auðvitað grunnatriði og síðan þurfa menn að halda áfram og velta fyrir sér áfram: Hvað get ég gert?

Til dæmis gæti blómabúð spurt sig, ætti ég að gefa eitt blóm í dag einhverjum sem þarf á því að halda? Ættu verslanir að leggja áherslu á að gefa fólki prufur eða eitthvað skemmtilegt? Gæti kvikmyndahús gefið eina sýningu - allir hefðu gott af söngsýningu á Mama Mia. Þetta eru krúttlausnir og við þurfum þær. En síðan þarf að velta fyrir sér hvernig hægt er að starfa í breyttu umhverfi. Hvernig breytist starf iðnaðarmanna? Eru verkefni eða viðfangsefni sem hægt er að ganga í þegar stóru verkefnin verða ekki eins mörg? Fáir hreyfa sig fyrr en meiri vissa er komin um hvað er og því getur tíminn nýst ágætlega til undirbúnings undir breytta starfsemi. Hættulegast er að hætta og hugsa einungis um sparnað en gleyma algerlega tækifærum. Fyrirtæki þurfa að halda áfram og kaupa þjónustu því ef þau gera það ekki þá getur sá sem þjónustuna veitir ekki keypt vöru af fyrirtækinu. Allt of margir bæta í þungann með því að setja spýtu fyrir eigin tannhjól. Þeir eru að einbeita sér að spurningunni: Hvað get ég ekki gert? Það þarf skynsemi og aðhald en ekki magnleysi.

Hugsum því frekar um spurninguna: Hvað get ég gert? Núna.


Verum undirbúin!

Nú á meðan ríkisstjórnin og fjármálageirinn er uppfyrir axlir í aðgerðum til að bregðast við þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir liggur allt of stór hluti þjóðarinnar á "refresh" takkanum á fréttamiðlunum með hnút í maganum í stað þess að nýta tímann til að búa okkur undir það sem koma skal. Verkefnin eru óteljandi en svigrúm til undirbúnings þrengist stöðugt. Vonandi gerist ekkert, vonandi verður allt gott og vonandi er undirbúningurinn algerlega óþarfur. En það er ábyrgðarleysi að fara ekki vel yfir hvað getur gerst og hvernig er hægt að bregðast við því.

Hver og einn verður að fara yfir hvaða hlutverk hann hefur í lífinu og kanna hvort einhvert þeirra sé þess eðlis að þar séu viðkvæmir blettir. Menn verða að fara yfir þetta af festu og rósemi. Margir vilja helst halda hlutum leyndum og rétt er að engin ástæða er til þess að stökkva á torg veinandi en það er enn meiri fásinna að hanga bara á "refresh" takkanum og haga sér eins og fórnarlamb í óviðráðanlegri stöðu og gera ekki neitt.

Ábyrgðin er fyrst gagnvart fjölskyldunni, hafa samband, vita hvar viðkvæmir blettir eru í umhverfinu og hvernig hún stendur. Næst er nauðsynlegt að skoða hvaða hlutverk hver og einn hefur í samfélaginu þar sem hann býr. Hvert er hlutverkið á vinnustaðnum, eru þar einhverjir viðkvæmir þættir sem þarf að fara yfir? Hvaða hlutverk hefur hver og einn þar? Hvaða félögum eða velgjörðarsamtökum eru menn þátttakendur í? Eru þar einhver atriði sem þarf að fara yfir og glöggva sig á? Við sem höfum boðið okkur fram til að vinna fyrir samfélagið berum enn meiri ábyrgð á þeim vettvangi sem okkur hefur verið falinn. Hver og einn stjórnmálamaður verður að fara yfir þann málaflokk sem hann hefur verið valinn til verka. Sýna ábyrgð og festu og reyna að tryggja með öllum tiltækum ráðum að undirbúningur sé nægur og áætlun, sem vonandi þarf aldrei að nota, sé til reiðu.

Nú þarf hver og einn að axla þá ábyrgð sem hann ber, treysta öðrum fyrir þeim verkum sem þeim ber að sinna en afskiptaleysi eða ábyrgðarleysi er algerlega óásættanlegt.


Lýsing - Okur hjá gráðugu fyrirtæki

Við breyttar aðstæður er ekki annað hægt að gera en fara yfir allt sem maður skuldar og allt sem verið er að borga og skoða hvort ekki sé hægt að draga úr, breyta eða hvað best er að gera.

Í því samhengi fór ég í Lýsingu til að athuga hvort þeir væru með einhver úrræði varðandi bílalán. Jú boðist var til að færa helminginn af afborguninni næstu þrjá mánuði aftast á lánið (allir vextir, verðbætur og þvíumlíkt óhreyft) gegn því að ég greiddi þeim 10.000 krónur.

Mér var algerlega ofboðið, þó ég sýndi stúlkunni í afgreiðslunni staka kurteisi þá verð ég að segja að fátt er meiri lágkúra en að bjóðast til að lána helminginn af bílalánsafborgun næstu þrjá mánuði á fullum kjörum gegn tíuþúsundkróna greiðslu. Ég hef aldrei heyrt um annan eins kostnað af lántöku.

Gráðugra fyririrtæki hef ég ekki kynnst heldur en Lýsingu. Þegar allir eru að leggjast á eitt þá finnst þessu fyrirtæki að enn skapist nýr möguleiki fyrir okurgróða fyrir lítið viðvik.


Þjóðsöngurinn í símabið

Ég þurfti að hringja í eitt ráðuneytanna í dag og þegar var verið að leita að þeim sem ég vildi tala við ómaði tónlist. Ég horfði ráðvillt út í loftið því eyranu á mér ómaði "Eitt eilífðar smáblóm" og ver að viðurkenna að mér brá. Hvernig gat staðið á þjóðsöngnum í símabið. Í gegnum huga mér leiftraði sú skyndilega hugsun að eitthvað rosalega mikið meira hefði gerst sem ég hefði ekki frétt af. Ég hafði jú ekki lesið fréttir í hálftíma. Orðunum "Guð blessi Ísland" brá fyrir og ég skellti mér inn á fréttasíðu. Ekkert gaf til kynna sem passaði við tónlistina "með titrandi tár" og ég andaði léttar. Þegar ég fékk samband við afgreiðsluna aftur þá spurði ég hvernig í ósköpunum stæði á því að þjóðsöngurinn væri meðal þeirrar tónlistar sem væri spiluð í símsvörun en því var ekki hægt að svara því tónlistin er stillt af í stjórnarráðinu.

Mér þætti vænt um að næst þegar ég bíð eftir sambandi við opinbera stjórnsýslu að heyra eitthvað annað. Ég er ekki sátt við að þjóðsöngurinn sé símabiðtónlist.


Skömmin

Erfiðasta tilfinningin sem ég hef verið að fást við í dag er skömmin. Ég skammast mín fyrir að íslenskir menn hafi gengið svo hart fram í öðrum löndum að þeir hafa svert nafn landsins og þjóðarinnar. Ég hef víða farið og margt séð, í öllum löndum mætti maður virðingu, forvitni að vera frá svo litlu landi og hlýlegum móttökum.

Fyrir nokkrum árum var ég á ráðstefnu í Puerto Rico. Sonur vinkonu minnar þarlendrar hafði staðið sig afburðarvel í háskóla og hlaut setu sem skiptinemi í bandarískum háskóla vegna hæfileika sinna einn vetur. Þar mætti hann hinsvegar andúð vegna þjóðernis síns og var ráðvilltur og jafnvel dálítið reiður að mæta þessum móttökum einungis vegna þess hvaðan hann var. Ég man eftir að hafa setið við virkið San Felipe del Morro og horft á þennan unga mann virða fyrir sér landið sitt sem fyrir mér var sem óraunveruleg paradís. Þá hugsaði ég hversu erfitt það hlyti að vera að mæta vantrú og andúð byggða á því hvaðan maður er.

Nú velti ég fyrir mér hvort ég mæti næst vantrausti, andúð eða háði þegar ég segist vera frá Íslandi. Er búið að taka frá mér að geta sagt með stolti "ég er frá Íslandi" og maður eyði frekar talinu. Hætti að segja frá kostum og göllum en verði þess í stað að þola svipaða andúð byggða á fordómum eins og ungi pilturinn frá Puerto Rico sem enganvegin átti það skilið.

Hvernig lagar maður mannorð heillar þjóðar? Segir þessi færsla söguna?


Næsta síða »

Höfundur

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband