Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Glæsileg keppni

Í hverri viku hef ég undrast hversu margt hæfileikaríkt fólk hefur verið í þessari keppni. Ótrúlega margir hefðu getað unnið Holly Steel, Shaheen Jafargholi, Flawless, Adrian Davis, Julian Smith, Shaun Smith, Greg Prichard svo ekki sé minnst á Susan Boyle og Diversity. Susan varð heimsfræg á örskotsstundu og mun því örugglega geta látið draum sinn rætast um að gefa út plötu. Þessi atvinnulausa kona sem sinnir sjálfboðastarfi í kirkjunni sinni felur feimnina bak við dálitla stæla. Hún skaðaðist í fæðingu og hefur því átt erfitt með nám en hefur greinilega stórt hjarta því hún sinnti móður sinni fram í andlátið. Þá var komið að henni sjálfri og Britain Got Talent gaf henni tækifæri. Lífið hefur breyst mikið fyrir þessa tæplega fimmtugu konu á stuttum tíma.

Styrkleiki Diversity var fyrst og fremst kóreógrafían sem var tær snilld. Tíu piltar, þar af þrennir bræður, af þremur kynþáttum, litlir og stórir, við nám og störf í afar mismunandi greinum. Saman voru þeir hinsvegar eins og ein vel smurð vél. Fyrst hrifu þeir mig vegna þess boðskapar sem var í atriði þeirra, síðan hversu agaðir þeir voru í dansi sínum sem kannski er meira leikþáttur og látbragðsleikur samþætt við ótrúlega dansfimi.

Það voru margir í miklu uppáhaldi hjá mér en helstir voru líklega Holly Steel og Greg Prichard ásamt Diversity og Susan Boyle. Diversity eru vel að sigrinum komnir en fyrst og fremst má óska þeim sem sjá um þennan sjónvarpsþátt til hamingju. Við grófum eftir gulli sagði einn dómarinn og við fundum það. Dag eftir dag horfðu þau á mismunandi vel heppnuð atriði sem áreiðanlega hefur tekið á þolinmæðina, en þau uppskáru laun erfiðisins, frábæra sjónvarpsþætti sem njóta heimsathygli og á sama tíma gáfu þau fólki tækifæri sem hafði þau ekki áður.


mbl.is Boyle tapaði fyrir dönsurum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óttalegur kjáni er maðurinn

Það er alltaf jafn leitt að sjá þegar menn óttast það sem þeir þekkja ekki vel og fáfræði er undirrót margra óhæfuverka. Ég hef aldrei skilið af hverju menn þurfa yfirleitt að hafa sérstaka skoðun á kynhneigð fólks, hvernig hún getur yfirhöfuð skipt nokkru máli. Það hryggir mig þegar brotið er á fólki einungis vegna þess hverja þeir elska og hverjum þeir vilja njóta lífsins með. Sárast er þó að sjá þegar menn beita trúarbrögðum sem standa mörgum afar nærri en þekkt er hvernig hægt er að beita þeim til illra verka á mörgum sviðum.

Því er leiðinlegt að sjá trúarleiðtoga trúarbragða sem um margt eru alveg ágæt beita þeim í kjánaskap vegna fáfræði sinnar. Með þessu veikir hann stöðu sína og trúarbragða sinna gagnvart upplýstu fólki og þeim sem skilja að verk manna byggjast ekki á kynhneigð þeirra því þá væri sjálfsagt búið að banna gagnkynhneigð fyrir löngu síðan. Það sér hver heilvita maður.


mbl.is Sadr vill uppræta samkynhneigð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nöldurþjóð

Já við höfum miklu meira að segja þegar við getum látið gamminn geysa um allt sem hægt er að finna að hlutunum heldur en þegar við eigum sjálf að leysa úr málum. Fyrst og fremst endurspeglast íslensk stjórnsýsla í ræðutímanum, umræða um stjórnarfrumvörp fer ekki fram í þingsal af stjórnarþingmönnum. Oftar en ekki semja ráðuneytismenn lögin, stundum að eigin frumkvæði, ráðherra trítlar með frumvarp í þingið og engin innanflokks æmtir né skræmtir. Síðan fá sömu ráðuneytismenn oft það hlutverk að skera úr málum eftir eigin lögum. Ég held að það sé eitt brýnasta stjórnsýslumál á Íslandi að öll lög séu samin á Alþingi en ekki út í einstökum ráðuneytum.

Umræða um málin þarf síðan að fara fram í þinginu, nú er ekki tíminn til að detta í sama farið, var ekki helsta ástæðan fyrir kosningunum að við vildum breytingar? Nöldrandi stjórnarandstaða og þegjandi stjórn er ekki það sem við þurfum svo vonandi verður það verulega breytt þegar þingið fer að starfa af fullum krafti.


mbl.is Ræðukóngarnir eru sestir í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lengsta vinnuvika!

Það er ótrúlegt að Íslendingar séu með lengstu vinnuviku OECD landanna og mikið umhugsunarefni. Er það vega þess að atvinnuþátttaka kvenna er mjög mikil? Eða er það vegna þess að vinnusemi þykir dyggð. Fram kom í yfirvinnubanni fyrir allmörgum árum að menn náðu að framkvæma sömu vinnu á skemmri tíma.

Að vera lengi í vinnunni er talið til dyggða á Íslandi og oft tengt vinnusemi sem er líklega fjarri sanni. Spurningin er hvort það eru ekki heilmörg störf laus ef menn skera niður yfirvinnu hvar sem það er mögulegt. Ég þekki til vinnustaðar sem skar niður starfsmann til að aðrir gætu verið með mikla yfirvinnu. Það er mjög ómannúðleg ráðstöfun að mínu mati og ekki hagkvæm því þar með er atvinnurekandi að fá minni vinnu fyrir meiri peninga. Ekki mikil hagfræði þar á ferðinni.

 


mbl.is Íslendingar meðal hávöxnustu þjóða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband