Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Konur og Húsavík

Ég hef aldrei séð jafn margar konur á pólitískum fundi á Húsavík og í kvöld. Það var ánægjulegt en líklega má skrifa það að hluta til á Dofra sem þóttist viss um að þarna yrði bara haugur af körlum en fáar konur. Að vísu tóku þær ekki formlega til máls en þær mættu.

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra stóð sig afskaplega vel á fundinum, var vel undirbúin og lýsti sínum ákvörðunum skilmerkilega. Heimamenn töldu ekki réttmætt að framkvæmdir vegna orkuöflunar álvers á Bakka þyrfti í heildstætt umhverfismat þegar Helguvíkurframkvæmdir þyrftu þess ekki. Ástæður þess skýrði Þórunn en augljóst að hér er um lögfræðilegt atriði að ræða. Best væri ef allir sætu við sama borð en munur var á stöðu framkvæmda þegar kæra barst og því er afgreiðslan mismunandi.

Verkið mun tefjast við þetta en það byggist alfarið á framkvæmdaaðilum hversu mikið það er og nú er bara að sjá hvort menn þæfa málið á þeim vettvangi eða bretta upp ermar.

Ég vildi að konurnar á Húsavík hefðu tjáð sig með afgerandi hætti í stað þess að láta karlana alfarið um það mál. En við samfylkingarmenn getum verið stolt, allavega var ráðherrann kona;-)


Vegur um hraun og drasl í hverum

 

Ég er ein þeirra sem hef mikla ánægju af náttúrunni, ferðast um og tek myndir. Fyrir rúmu ári hóf ég meistaranám í ljósmyndun við Academy of Art University í San Francisco og hef nýverið byrjað á lokaverkefninu mínu sem fjallar um nýtingu á heitu vatni í Norðaustur kjördæmi frá kjördæmamörkum í vestri til austurs til og með Kópaskeri. Nú nýti ég tímann til að þvælast, leita að borholum og ummerkjum um nýtingu þessarar hreinu orkulindar.

Vegur yfir nýja hraunið í Gjástykki

Í vikunni var ferðinni heitið að Þeistareykjum en ég hafði hlakkað til að mynda þar. Þar sem engir vegir eru merktir þá viltist ég af leið en fannst vegurinn furðulega góður. Hann hlyti að enda á einhverju merkilegu. Viti menn, áður en ég vissi var vegurinn kominn að nýja hrauninu í Gjástykki og tonn af sandi komin ofan í hraunið og vegurinn lá áfram yfir nýja hraunið meðfram fallegum hraunreipum, hraunám og yndislegum hraunmyndunum. Ég stóð þarna með myndavélina og slóst við hugsanirnar um hversu heppin ég væri að komast svona í mitt hraunið til að sjá hvað það væri fallegt og því að þarna væri vegur yfir hraunið án þess að ég vissi til þess að umhverfismat hefði átt sér stað.

Áfram hélt ég og fyrr en varði var ég komin að borholu í miðju hrauninu. Þar sem ég veit að borarnir geta borað skáhallt, og þar með undir hraunið ef nauðsynlegt var að fara þangað varð ég dálítið undrandi á því að menn færu beint í gegnum hraunið. Síðan hélt ég áfram og fann aðra borholu austan við hraunið og undraðist  af hverju ekki var farið að þeirri holu austanfrá því þá hefðu menn ekkert þurft yfir stóran hluta hraunsins.

Enn liggur þarna slanga fyrir vatn, líklega 5 kílómetra leið yfir hraunið sem hefur verið notuð við borunina.

Þungt hugsi hélt ég áfram upp að Þeistareykjum og dáðist að skjannahvítum leirhverum, og fann Hver á Þeistareykjumorkuna í jörðinni undir fótum mér. Þegar upp að gangnamannahúsi var komið fór ég að skoða hverina þar og þá varð ég barasta geðvond. Ofan í tveimur hverum voru flöskubrot og plastúrgangur. Látum vera plast sem var yfir lögn inn í gangnahúsið en í kring var hræðileg umgengni. Í kringum borinn og borholur virtist vel um gengið en þarna við húsið var sorglegt að horfa á hverina.

Áfram hélt ég niður á Húsavík en þar voru miklar vegaframkvæmdir á uppbyggðum veg. Ég undraðist enn að undirlagið og byggingin á veginum virtist vera ótraust og spurðist fyrir. Þá var mér tjáð að ekki hefði verið gert verkfræðilegt skipulag af fagmönnum á þessum vegi sem líklegt má telja að verði vinsæll vegur fyrir ferðamenn. Getur þetta verið satt? Er verið að byggja veg sem ekki uppfyllir ítrustu kröfur um vegagerð í landinu? Á að fara með ferðamenn í rútum eftir slíkum vegi til að skoða hveri á Þeistareykjum? 

Eins og menn vita þá hef ég alla tíð verið afar hlynnt orkunýtingu á Þeistareykjum til atvinnuuppbyggingar á Húsavík. En ég viðurkenni að mér sveið dálítið eftir þessa ferð. 

Ég sting hér með tveimur myndum sem ég tók í ferðinni sem sýna hvað það er sem ég sá. Takið eftir hraunánni hægra megin við veginn í nýja hrauninu og girðingartægjunni. Ég hefði aldrei séð hraunána án vegarins... en...


Ótrúlega skemmtilegt

Það var virkilega gaman á súpukvöldinu og ég fékk bestu fiskisúpu sem ég hef smakkað þetta kvöld. Ekki var síður skemmtilegt að hitta fullt af fólki sem ég hef ekki séð í fjölda ára og þar á meðal tvo sem ég hef ekki séð síðan í Álftamýrarskóla í kringum 1970!

Mæli með þessu kvöldi sem var einstaklega vel úr garði gert hjá bæjarbúum. Síðan fékk maður haug af knúsi og knúskortin voru brillíant.


mbl.is Um 20 þúsund manns á fiskisúpukvöldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband