Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Blogg og bleksverta

Einhverra hluta vegna virðist sumum í nöp við bloggskrifara og telja þá ritun lakari að virðingu en það sem skrifað er með bleksvertu. Nú er mér hulin ráðgáta hvort það er stigsmunur á því með hvaða verkfæri menn skrifa niður skoðanir sínar. Eru til dæmis verri hugmyndir skrifaðar með Biro penna en Pelican penna? Voru hugmyndir betri þegar steypa þurfti prentmát en þegar hægt er að setja í tölvu?

Eða eru menn ef til vill að tala um að það vanti ritskoðun? Það séu meiri líkur á því að það sé ritskoðað sem fer í dagblöð eða bækur þar sem þá eru ritstjórar eða eftirlitsmenn?

Menn eiga misauðvelt með að setja fram skoðanir sínar í rituðu máli, fyrir því geta verið ýmsar ástæður. Þeir sem dýrka móðurmálið verða afskaplega tilfinningaríkir þegar menn hafa ekki þá náðargáfu að geta ritað fagra íslensku. Sömu menn tala hinsvegar líka um að aðflutt fólk njóti sama réttar og við hin. Hvernig geta þau það þegar þau hafa annað móðurmál en eru höfð að háði og spotti sé íslenskan þeim ekki kristaltær? Hvað með þá sem eru les- eða skrifblindir, eiga þeir aldrei að segja neitt í rituðu máli? Hafa þeir sem hafa náðargáfu á ritaða íslensku einkaleyfi á að segja sínar skoðanir?

Sumir stjórnmálamenn hafa ekki stjórn á sér þegar þeir fjalla um blogg og telja slík skrif langt neðan sinnar virðingar. Eru þetta þeir sem vilja ekki að alþýðan geti sagt það sem hún vill?

Bloggníðingar eru ritníðingar nútímans þeir eiga að lúta sömu lögum og þeir sem í ræðu eða riti eru dæmdir fyrir orð sín. Orðum fylgir ábyrgð.


Frábær framganga

Allt of margir láta sig engu varða hvað gerist í heiminum, hugsa bara um sjálfan sig og sitt nánasta - tja og stundum ekki einu sinni það. Fáir Íslendingar geta sett sig í spor þessara kvenna eða hafa möguleika á að átta sig á við hvað fólkið býr og því er þessi ganga þörf áminning til okkar allra um málefnið og að það er yfirhöfuð eitthvað til sem heitir Fiðrildavika. Megi þeir sem gengu hafa þakkir fyrir.
mbl.is Fiðrildaganga í þágu kvenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ungur maður með skoðanir

Það er alltaf skemmtilegt þegar ungt fólk skoðar samfélagið í kringum sig og myndar sér skoðanir. Skoðanir sem ná lengra en hvernig foreldrar þeirra eru, fötin á félögunum og kennarinn. Það er hárrétt að samviska og siðferði fólks í veröldinni er ekki bundið við kristni. Þegar ég hef heyrt slíkar fullyrðingar hef ég velt því fyrir mér hvaða áhrif það getur haft ef menn trúa slíku.

Hverjum dettur í hug að allir þeir íbúar jarðarinnar sem ekki eru kristnir séu samviskulausir og siðlausir? Þeir sem trúa því stuðla að fordómum í garð fjölmargra þjóða hvað þá einstaklinga sem við þó vitum að eru ekki lakara fólk en við sjálf sem búum í löndum sem aðhyllast kristni eða erum kristin.


mbl.is Biskup gagnrýndur í Laugarneskirkju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arfavitlaus íslenska

Hvernig er hægt að skilja þetta:

Vísaði hann til skýrslna sem unnar hafa verið um Ísland og hverju þær hafi skilað því þegar menn væru upplýstir um stöðuna þá skilar það sér. 

Þýðing óskast!!!


mbl.is Forsætisráðherra: Hefur slæm áhrif þegar stíga þarf snöggt á bremsurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grímulaus samkeppnishindrun

Ég leitaði í Morgunblaðinu að umfjöllun um synjun Gísla Marteins á leyfi fyrir Icelandic Express að fá aðstöðu við austanverðan Reykjavíkurflugvöll. Fann ekkert. Kannski kemur það síðar en ekki er ég hissa á að Mogginn hreinlega kveinki sér undan því að fjalla um að borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins ákveði samkeppnishindrun sem mun líklega vara a.m.k. þar til flugvöllur fer úr Vatnsmýrinni fái hann að ráða. Á meðan stuðlar hann að einokun flugleiða innanlands og háu vöruverði.

Það er ljótt að sjá svo grímulausa samkeppnishindrun innleidda af Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík. Það kemur málinu ekkert við hvort flugvöllur verður eða fer hvort það megi afgreiða flugvélar í samkeppni við Flugfélag Íslands. Þetta er bara kúgun.


Orkugjafar

Ég er nú að undirbúa lokaverkefnið í ljósmyndanáminu en ég þarf að vinna að því verkefni í a.m.k. ár en undirbúa í tvær annir. Ég valdi mér endurnýjanlega orkugjafa og hef verið að stúdera hverasvæði, borholur, flutning á vatni, tanka og hvernig vatnið er notað. Það er ótrúlega gaman að ferðast eftir lögnum og sjá hvernig þau fléttast um landið. Stundum haganlega en stundum ekki.

Ég fór einnig á boranasvæðið við Kröflu og tók myndir þar sem var verið að taka upp borkrónu og fór að holusvæðunum. Það er ótrúleg orka í gangi, jörðin drynur og brennheit gufan spýtist upp.

Við lesturinn um Gunnuhver þá einmitt hef ég verið að velta fyrir mér hvernig ég fjalla um áhrif jarðhræringa á háhitasvæðin. Í Námaskarði þar sem ég var að mynda um daginn virðist allt eins og verið hefur og spottar sem afmarka hitasvæðin kyrrir á sínum stað. Þetta getur hinsvegar breyst snarlega.

Það verður allavega afskaplega spennandi að fylgjast með háhitasvæðum, jarðgufu og flutningi á heitu vatni það sem eftir er náms eða til sumarsins 2009. Vonandi kemur eitthvað skemmtilegt í ljós;-)


mbl.is Gunnuhver færist í aukana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugavert búsetuform

Ég hef alltaf verið mjög upptekin af því að þurfa að eiga eigin íbúð og lagt talsvert hart að mér til að svo geti verið. Nú í seinni tíð er ég þó farin að efast og heillast af hugmyndinni um húsnæðissamvinnufélög sem gefur okkur meira frelsi en að eiga eigin íbúð og þurfa að sjá um hana alla tíð.

Ég hef skoðað tvær íbúðir í þessu húsi og líst mjög vel á þær, þar er allt til alls og ekkert vesen;-)


mbl.is Stærsta fjölbýlishúsið úti á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband