Leita í fréttum mbl.is

Hvað get ég gert?

Tíminn líður og fólk vill svör en svör virðast ekki til. Engin patentlausn ekkert hókus pókus, verkefnið hverfur ekki. Menn missa kjark og spyrja sig að því hvað þeir geti nú ekki gert en þessu þarf að snúa við og spyrja: Hvað get ég gert?

Eigur manna eru grunnstoð lífs þeirra og því ekki furða að erfitt sé þegar enn er óljóst hversu sterkar þær eru. Ekki einungis eigin eigur heldur eigur samfélagsins sem við reiðum okkur á. Menn eru að vinna í málum en biðin er löng og óróleiki grípur um sig, þegar lítið er vitað er auðvelt að ímynda sér og ímyndir geta tekið völdin. Til að beina orkunni í annan farveg er því nauðsynlegt fyrir hvern og einn að spyrja sig: Hvað get ég gert?

Óvissa getur skapað depurð og reiði en hvorug tilfinninganna er gagnleg hvorki manni sjálfum eða öðrum. Finni menn sér gagnlegt viðfangsefni til að vinna með sem nýtist fjölskyldu, vinnustað eða samfélaginu gagnast það ekki bara þeim sem nýtur verksins heldur einnig þeim sjálfum er verkið vinnur. Knús, kossar, hlýja og handabönd eru auðvitað grunnatriði og síðan þurfa menn að halda áfram og velta fyrir sér áfram: Hvað get ég gert?

Til dæmis gæti blómabúð spurt sig, ætti ég að gefa eitt blóm í dag einhverjum sem þarf á því að halda? Ættu verslanir að leggja áherslu á að gefa fólki prufur eða eitthvað skemmtilegt? Gæti kvikmyndahús gefið eina sýningu - allir hefðu gott af söngsýningu á Mama Mia. Þetta eru krúttlausnir og við þurfum þær. En síðan þarf að velta fyrir sér hvernig hægt er að starfa í breyttu umhverfi. Hvernig breytist starf iðnaðarmanna? Eru verkefni eða viðfangsefni sem hægt er að ganga í þegar stóru verkefnin verða ekki eins mörg? Fáir hreyfa sig fyrr en meiri vissa er komin um hvað er og því getur tíminn nýst ágætlega til undirbúnings undir breytta starfsemi. Hættulegast er að hætta og hugsa einungis um sparnað en gleyma algerlega tækifærum. Fyrirtæki þurfa að halda áfram og kaupa þjónustu því ef þau gera það ekki þá getur sá sem þjónustuna veitir ekki keypt vöru af fyrirtækinu. Allt of margir bæta í þungann með því að setja spýtu fyrir eigin tannhjól. Þeir eru að einbeita sér að spurningunni: Hvað get ég ekki gert? Það þarf skynsemi og aðhald en ekki magnleysi.

Hugsum því frekar um spurninguna: Hvað get ég gert? Núna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband