Leita í fréttum mbl.is

Vegur um hraun og drasl í hverum

 

Ég er ein þeirra sem hef mikla ánægju af náttúrunni, ferðast um og tek myndir. Fyrir rúmu ári hóf ég meistaranám í ljósmyndun við Academy of Art University í San Francisco og hef nýverið byrjað á lokaverkefninu mínu sem fjallar um nýtingu á heitu vatni í Norðaustur kjördæmi frá kjördæmamörkum í vestri til austurs til og með Kópaskeri. Nú nýti ég tímann til að þvælast, leita að borholum og ummerkjum um nýtingu þessarar hreinu orkulindar.

Vegur yfir nýja hraunið í Gjástykki

Í vikunni var ferðinni heitið að Þeistareykjum en ég hafði hlakkað til að mynda þar. Þar sem engir vegir eru merktir þá viltist ég af leið en fannst vegurinn furðulega góður. Hann hlyti að enda á einhverju merkilegu. Viti menn, áður en ég vissi var vegurinn kominn að nýja hrauninu í Gjástykki og tonn af sandi komin ofan í hraunið og vegurinn lá áfram yfir nýja hraunið meðfram fallegum hraunreipum, hraunám og yndislegum hraunmyndunum. Ég stóð þarna með myndavélina og slóst við hugsanirnar um hversu heppin ég væri að komast svona í mitt hraunið til að sjá hvað það væri fallegt og því að þarna væri vegur yfir hraunið án þess að ég vissi til þess að umhverfismat hefði átt sér stað.

Áfram hélt ég og fyrr en varði var ég komin að borholu í miðju hrauninu. Þar sem ég veit að borarnir geta borað skáhallt, og þar með undir hraunið ef nauðsynlegt var að fara þangað varð ég dálítið undrandi á því að menn færu beint í gegnum hraunið. Síðan hélt ég áfram og fann aðra borholu austan við hraunið og undraðist  af hverju ekki var farið að þeirri holu austanfrá því þá hefðu menn ekkert þurft yfir stóran hluta hraunsins.

Enn liggur þarna slanga fyrir vatn, líklega 5 kílómetra leið yfir hraunið sem hefur verið notuð við borunina.

Þungt hugsi hélt ég áfram upp að Þeistareykjum og dáðist að skjannahvítum leirhverum, og fann Hver á Þeistareykjumorkuna í jörðinni undir fótum mér. Þegar upp að gangnamannahúsi var komið fór ég að skoða hverina þar og þá varð ég barasta geðvond. Ofan í tveimur hverum voru flöskubrot og plastúrgangur. Látum vera plast sem var yfir lögn inn í gangnahúsið en í kring var hræðileg umgengni. Í kringum borinn og borholur virtist vel um gengið en þarna við húsið var sorglegt að horfa á hverina.

Áfram hélt ég niður á Húsavík en þar voru miklar vegaframkvæmdir á uppbyggðum veg. Ég undraðist enn að undirlagið og byggingin á veginum virtist vera ótraust og spurðist fyrir. Þá var mér tjáð að ekki hefði verið gert verkfræðilegt skipulag af fagmönnum á þessum vegi sem líklegt má telja að verði vinsæll vegur fyrir ferðamenn. Getur þetta verið satt? Er verið að byggja veg sem ekki uppfyllir ítrustu kröfur um vegagerð í landinu? Á að fara með ferðamenn í rútum eftir slíkum vegi til að skoða hveri á Þeistareykjum? 

Eins og menn vita þá hef ég alla tíð verið afar hlynnt orkunýtingu á Þeistareykjum til atvinnuuppbyggingar á Húsavík. En ég viðurkenni að mér sveið dálítið eftir þessa ferð. 

Ég sting hér með tveimur myndum sem ég tók í ferðinni sem sýna hvað það er sem ég sá. Takið eftir hraunánni hægra megin við veginn í nýja hrauninu og girðingartægjunni. Ég hefði aldrei séð hraunána án vegarins... en...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Lausadraslið sem myndirnar eru af -er það ekki hreinir smámunir miðað við vegagerðina yfir þennan hluta Gjástykkis ?  

Auðvelt að hreinsa það, en vegurinn er varanleg skemmd á hrauninu og verður ekki bætt um fyrr en í næsta gosi-hvenær sem það nú verður.  

Er ekki einmitt þetta, með  að í upphafi skal endirinn skoða- hvernig lýtur svæðið út þegar öllum orkuöflunarframkvæmdum er lokið ?  Er það ekki einmitt það sem þessu umhverfismati er ætlað að leiða fram ? 

Á nútíma, með þrívíddar tölvuútfærslu,er mjög auðvelt að leiða fram í skýru myndrænu formi allt útlit svæðisins fyrir og eftir framkvæmdir.

Og áður en nokkurt rannsóknaleyfi er gefið ,á svona umhverfismat að liggja fyrir - Þá er hægt að gefa út fyrirfram - hvernig skal að verkum staðið.

Mér finnst þetta sem þú sýnir með þínum góðu myndum - leggja áherslu á hversu nauðsynlegt á heildar umhverfismat er - í upphafi alls sem að heildinni lýtur.

Sævar Helgason, 10.8.2008 kl. 14:57

2 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Jú girðingardótið er auðvelt að hreinsa enda svosem ekki mikið af því. Vonbrigði mín fólust í því að það er merki um sinnuleysi.

Það er vonlaust að taka veginn í burtu það hefur ekkert upp á sig því ekki er hægt að færa hraunið til fyrra horfs. Þetta hraun er laust í sér og mylst auðveldlega. Jafnvel þó einungis sé gengið á því, hvað þá ef ekið er yfir það.

Úr því sem komið er verður þessi vegur þarna og einungis meira lýti að taka hann í burtu enda myndi það kosta enn meira rask. Eins og staðan er þá gefur hann einstaka möguleika á að skoða form og liti í tiltölulega nýju hrauni.

Segjum sem svo að orka úr borholu í miðju hrauninu sé gjöful. Þá þýðir það lagningu röra um hraunið. Því tel ég að menn ættu að reyna að hald sig utan hraunánna við boranir enda ætti ekki að skipta meginmáli nokkrir metrar til eða frá á yfirborði jarðar. Það er hægt að flytja orkuna bæði til Þeistareykja og niður að Kröflu án þess að fara nokkrum sinnum yfir hraunin.

Umhverfismatið er nauðsynlegt, bæði til að kortleggja hvernig hlutirnir eru núna sem og hvernig er hægt að koma framkvæmdum fyrir með sem minnstu raski. Það er eina vitlega leiðin til þess að fara í orkuöflun í sátt við náttúru og menn.

Lára Stefánsdóttir, 10.8.2008 kl. 15:53

3 identicon

Umhverfismatið er nauðsynlegt, bæði til að kortleggja hvernig hlutirnir eru núna sem og hvernig er hægt að koma framkvæmdum fyrir með sem minnstu raski. Það er eina vitlega leiðin til þess að fara í orkuöflun í sátt við náttúru og menn.

Þar sem þú ert varaþingmaður í kjördæminu mínu þá langar mig að sjá skýrari línur frá þér Lára varðandi ákvörðun Þórunnar um heildarmat. Mér finnst kvóteringin sem ég set hér úr kommenti þínu ekki segja mér hvort þú átt við heildrænt umhverfismat eða umhverfismat eins og áður hafði verið samþykkt af Skipulagsstofnun. 

Styður þú ákvörðun Þórunnar, samflokkskonu þinnar, um heildrænt umhverfismat?

Um leið og ég skrifa þetta er ég að hlusta á viðtal í við Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði sem tekið var við hann í Speglinum á RÚV. Viðtalið er aðgengilegt í spilaranum hennar Láru Hönnu, larahanna.blog.is. Afar merkilegar upplýsingar um jarðvarmavirkjanir þar. Ef svo ólíklega vill til að þú hefur ekki heyrt það þá mæli ég eindregið með því.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 12.8.2008 kl. 15:39

4 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Takk fyrir ábendinguna um viðtal við Stefán. Ég styð Þórunni.

Lára Stefánsdóttir, 12.8.2008 kl. 16:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband