Leita í fréttum mbl.is

Svarthvítt eða litur

Ég hef verið að velta fyrir mér hvort það sé listrænna að taka svarthvítar ljósmyndir eða í lit. Hérna í eina tíð var talið að ekkert væri list nema ljósmyndin væri svarthvít og litmyndir væru fyrst og fremst fyrir lágkúrulegar auglýsingar ef ég man rétt úr ljósmyndasögunni. Einn af þeim sem breytti viðhorfi manna var Ernst Haas en hann leit svo á að litljósmynir væru ekki síður list ef menn kynnu með liti að fara.

Eftir dálitla hugsun áttaði ég mig á því að mér finnst svarthvít ljósmynd fjær mér en sú í lit, fjær í tíma og fjær sálinni á einhvern hátt. Líklega af því hún er óraunveruleg, ég sé ekki í svarthvítu. Þá er spurning hvort það sé erfiðara að taka góða litljósmynd en svarthvíta. Þarf að velta því fyrir mér áfram;-)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl! Sigga hér. Hef verið að spá svolítið í þetta með ljósmyndirnar.

Mér finnst eins og svarthvítar myndir séu frekar ,,tímalausar" en litmyndir. Þær valda einhvern veginn öðrum áhrifum.

Kannski spilar líka inn í þetta að litir eru misjafnlega samofnir skynjun fólks. Sumir sjá kannski meira út úr svarthvítri mynd því hún kveikir einhver hughrif sem tengjast þá m.a. litum. Litmyndir eru þá meira ,,konkret", þetta er bara svona á litinn og ekki orð um það meir...

Veit ekki. Kannski spilar þarna inn í að ég sé svo miklu fjölbreyttari og fleiri liti í huganum en með augunum, (alltaf skrítin..) Öll mannanöfn sé ég t.d. í litum.  Einnig flest staðarnöfn. Þessu valda ákveðnar tengingar í heilanum, sem eru öðruvísi en hjá þorra manna og kallast samskynjun, eða synesthesia. Jæja, þetta var nú svona útúr dúr.

En gangi þér vel í náminu! 

Sigga Birna (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 03:36

2 Smámynd: Sigríður Birna Guðjónsdóttir

Sæl! Sigga hér. Hef verið að spá svolítið í þetta með ljósmyndirnar.

Mér finnst eins og svarthvítar myndir séu frekar ,,tímalausar" en litmyndir. Þær valda einhvern veginn öðrum áhrifum.

Kannski spilar líka inn í þetta að litir eru misjafnlega samofnir skynjun fólks. Sumir sjá kannski meira út úr svarthvítri mynd því hún kveikir einhver hughrif sem tengjast þá m.a. litum. Litmyndir eru þá meira ,,konkret", þetta er bara svona á litinn og ekki orð um það meir...

Veit ekki. Kannski spilar þarna inn í að ég sé svo miklu fjölbreyttari og fleiri liti í huganum en með augunum, (alltaf skrítin..) Öll mannanöfn sé ég t.d. í litum.  Einnig flest staðarnöfn. Þessu valda ákveðnar tengingar í heilanum, sem eru öðruvísi en hjá þorra manna og kallast samskynjun, eða synesthesia. Jæja, þetta var nú svona útúr dúr.

En gangi þér vel í náminu! 

Sigríður Birna Guðjónsdóttir, 29.12.2007 kl. 03:52

3 Smámynd: Þórir Kjartansson

Ég held að þetta fari alveg eftir því hvað þú vilt sýna og hvaða hughrifum þú vilt ná með myndinni.  Mér finndist t.d. lítið varið í  haustlitamynd í svart hvítu.  En myndir  af fólki  og þá helst gömlum og veðurbörðum andlitum vil ég endilega sjá sv.hv. En auðvitað á ljósmyndarinn sjálfur að ákveða sitt tjáningarform.  Bkv. frá Vík.

Þórir Kjartansson, 29.12.2007 kl. 10:50

4 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Ég er alvega sammála því að það er fyrst og fremst ljósmyndarinn sem ákveður. Ég nýt svarthvítra mynda og finnst þær fallegar og skemmtilegar. Hinsvegar er ég að velta fyrir mér minni eigin ljósmyndun og er að skoða hvort svarthvítar myndir er eitthvað sem ég vil skoða alvarlega.

Lára Stefánsdóttir, 29.12.2007 kl. 18:35

5 Smámynd: Páll Jóhannesson

Svart/hvítar v/ litmyndir, má ég biðja frekar um litinn. Þegar ég skoða svart/hvítar myndir dett ég ávallt inn í fortíðina hugsa um gamla daga, aftur til fortíðar. Ég hrífst meir af litmyndum.

Áramótakveðja

Páll Jóhannesson, 30.12.2007 kl. 10:43

6 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Ég held að hvort um sig sé nánast alveg sjálfstæð listgrein og beggja sé hægt að njóta á sinn hátt, eins og er t.d. með selló eða kontrabassa, fiðlu eða lágfiðlu. Það er ekki sami hluturinn en býður upp á sjálfstæðar túlkanir sem ekki er hægt að ná fram með öðru móti.

Bestu áramótakveðjur og þakkir fyrir liðin ár.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 30.12.2007 kl. 15:06

7 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Ég er sammála Siggu um tímaleysi svarthvítra mynda af fólki, kannski má segja að litir komi og fari úr tísku en hið svarthvíta lifi í einhverskonar tímaleysi. Ef við horfum t.d. á þessa mynd eftir William Eggleston þá sjáum við um leið að hún er tekin einhverstaðar á sjöunda áratugnum, líklega í Bandaríkjunum. Litirnir setja tíma á myndina af því að konan er í ótrúlega skræpóttum kjól og situr á enn skræpóttari sófa.

Ef við skoðum hinsvegar Ernst Haas sem er einn af mínum uppáhaldsljósmyndurum og myndaði m.a. í Surtsey og skoðum þessa mynd þá er hún algerlega tímalaus.

Svo stundum setja litmyndir tíma á ljósmynd en stundum ekki.

Að hluta til held ég að Ragnar sé á réttri leið þó kannski sé of þröngt að flokka þessar mismunandi tegundir ljósmynda sem einstök hljóðfæri og frekar túlka þær sem mismunandi hljómsveitir. Því innan myndanna geta síðan verið lík eða ólík viðfangsefni.

Páll talar um fortíðardrama í svarthvítum myndum og ég get verið sammála því að hluta til en hann dregur einnig fram smekk þ.e. honum líkar betur nútímalegri myndir. Þeir sem eru hrifnari af fortíðinni gætu því verið hrifnari af svarthvítum myndum.

Að sumu leyti má segja að það sé flóknara að taka góða litmynd heldur en góða svarthvíta mynd. Litir spila saman á flókinn hátt þegar svarthvít mynd spilar einungis á blöndu af hvítu og svörtu þar sem þær myndir eru yfirleitt aldrei alveg hvítar (255) eða alveg svartar (0) heldur mjög nálægt því. Í litmyndum þarf að spila með hreina liti s.k. hue og síðan blöndu við þá af svörtu (tja eða hvítu) eða s.k. saturation. Þannig eru menn hrifnir í dag af myndum sem hafa tiltölulega þrönga liti.

En auðvitað voru ljósmyndarar eins og til dæmis Ansel Adams listamenn með svarthvítar myndir en þær voru auðvitað gríðarlega mikið unnar til að fá þær eins og hann vildi og var hann með hóp aðstoðarmanna í því eins og flestir sem framkalla svarthvítar myndir af filmu á pappír.

Áhugaverð pæling...

Lára Stefánsdóttir, 30.12.2007 kl. 20:53

8 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Þórir talar um að sjá gömul veðurbarin andlit í svarthvítu en síður í lit. Þá er spurning hvort andlit eins og þetta hér væri betra í svarthvítu eða hvort það njóti sín virkilega í lit. Hvað finnst mönnum um það?

Lára Stefánsdóttir, 30.12.2007 kl. 21:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Lára Stefánsdóttir
Lára Stefánsdóttir

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband